Sögur
Tröllið sem langaði að standa í hópi
1. Kafli
Í fjallinu fagra býr tírætt tröll. Á hverjum morgni klæðir hún sig í litríkan kjól, skreytir sig með glitrandi steinum og setur hárið upp í bing.
Svo fær hún sér morgunte. Það skiptir máli hvernig það er. Það veit tröllið best.
Hún kann að búa til seyði og te við ýmsum kvillum. Til hennar koma mýs og menn, vættir og tröll, sem þurfa bót á kvefi, slæmum svefni, sárum hálsi, depurð og annarri óáran.
Skemmtilegast þykir henni þegar kvillinn er þess eðlis að viðskiptavinirnir þurfa að drekka seyðið sitt í eldhúsinu hjá henni. Þá ber svo margt á góma.
Krían sagði: „Mikið er ég fegin að þú gast hjálpað mér kæra frú Katla, ég er að fara að syngja með kórnum mínum á tónleikum í kvöld. Ég hefði ekki komið upp nokkru hljóði án þessa tes, sem þú galdraðir fram fyrir raddböndin.”
Hundurinn sagði: „Þakka þér nú fyrir seyðinn. Það var með naumindum sem ég náði að klifra hingað til þín með þessa hræðilegu bakverki, en nú sit ég hér og drekk þetta græna te, og verkurinn er horfinn um leið. Ég þarf ekki að boða forföll á knattspyrnumótið.”
Katla veit að jurtir nægja ekki einar saman. Alúð og umhyggja verður að fljóta með.
Á kvöldin flýgur hrafninn Svartur alltaf inn um eldhúsgluggann og segir henni fréttir. Hún hlustar þakklát en segir ekki margt, því orðum dagsins er hún búin að verja til þeirra sem þurfa eitthvað ljúft með beiskum seyðum.
En þó Katla sé oftast glöð og þó hún sé virt og dáð, þá hefur draumur hennar ekki enn ræst. Hana langar stundum að vera hluti af hópi. Hún hefur séð skýin breytast í kór og fótbolta og sjálfa sig fagna marki meðal félaga. Allir eru í eins búningum, brosa og fá mynd af hópnum. Hún ímyndar sér að hún setji slíka mynd í stóra gyllta rammann í eldhúsinu, þann með bláu og bleiku blómunum.
Meðan hún saxaði jurtir og hrærði í stórum pottum gæti hún litið hversdagslega til hliðar á myndina og fundið hitagos í hjartanu.
2. Kafli
Kvöld eitt bar Svartur henni þær fréttir að á trjám skógarins væri verið að auglýsa eftir nýjum félögum í kríukórinn og inntökupróf færi fram daginn eftir.
Þegar Svartur var farinn bruggaði Katla söngseyði fyrir sjálfa sig og faldi bakvið hrærivélina.
Hún vissi ekki hvers vegna hún faldi seyðið. Venjulega raðaði hún framleiðslunni skipulega á eldhúsborðið, merkti hverja krukku og var stolt af dagsverkinu.
Daginn eftir vaknaði hún snemma, klæddi sig og skellti í sig söngseyðinu. Svo leit hún á klukkuna. Seyðið yrði farið að virka þegar hún mætti í prófið, tveimur tímum síðar.
Þegar viðskiptavinir Kötlu komu til að sækja seyðin sín þennan daginn var hún þögul og óþolinmóð.
Katla flaug ekki í gegnum inntökuprófið, eins og flestar kríurnar, en þar sem færri sóttu um inngöngu en búist hafði verið við, var henni tjáð að hún fengi að vera með.
Á fyrstu kóræfingunni fengu nýir meðlimir kórbúning. Svo var tekin mynd af hópnum. Myndin fór í gyllta rammann fyrir ofan eldhúsborðið hjá Kötlu, alveg eins og hún hafði séð fyrir sér.
Við tóku æfingar tvisvar í viku. Katla þurfti að læra á röddina sína og reyna að syngja eftir nótum og hvorki hærra né í öðrum takti en kórinn. Það var vissulega fallegt að heyra hljóminn þegar allir gerðu eins og kórstjórinn sagði.
En kóralífið fólst í fleiru en að syngja og standa í hópi. Stundum hittust félagar fyrir æfingu til að kaupa sér ís. Katla hlusta á fréttir Svarts fyrir æfingar. En þegar tvær hvítar kríur sóttu hana á leiðinni í ísbúðina og hún sagði þeim að hún ætlaði að sleppa ísnum til að hitta svarta hrafninn, sá hún í augum þeirra að það væri óhugsandi.
3. Kafli
Í ágúst fór kórinn í sína árlegu utanlandsferð til Suðurskautslandsins til að syngja fyrir alls konar furðufugla. Katla pakkaði litríkum kjólum, glitrandi spennum og íburðarmiklu hárskrauti. Hún þurfti að fljúga með flugvél, en kríurnar fylgdu vélinni og henni leið því næstum eins og hún flygi þeirra á meðal.
Þegar komið var upp á hótel og kórfélagar fóru að taka upp úr töskum komust kríurnar ekki hjá því að sjá kjólana sem Katla dró stolt upp úr töskunni sinni. „Þetta er allt í lagi Katla, við förum með þér á morgun og kaupum eitthvað smart,” sögðu þær hughreystandi. Katla fann umhyggjuna og samstöðuna sem fylgdi þessum orðum en skildi ekki hvað væri að kjólunum hennar. Þegar hún opnaði munninn til að spyrja, voru þær búnar að snúa sér við og farnar að reita af sér brandara.
Daginn eftir vaknaði Katla við mikið fjaðrafok. Kríurnar gengu fram og til baka með bursta og lakk og kepptust við að kíkja á sig í speglinum. Það var ekkert pláss fyrir tröll við agnarsmáa spegilinn sem þær reyndu að skipta á milli sín.
Út á lífið. Ys og þys. Selir á knæpum drukku bjór með látum. Mörgæsir pikkuðu svellið á hælum. Keyptu flóru og fánu og liðu áfram í takt við blaktandi hafið.
Kórinn krækti saman höndum á leiðinni í Miðstöðina. Stóðu þar og göptu. „Það er a,a,a,a, aldeilis!” sögðu þær allar sem ein, nema Katla - hún var víst ekki ein af þeim. Horfði til baka og sá glitta í þetta hótel. Sogaðist inn með þeim.
„Va, gua ætlarðu ekki að máta eitthvað? Farðu í þetta,” sagði kría og skellti svörtum kjól á magann á henni. „Hvernig líst þér á? HA!” sögðu þrjár í einu.
Það sauð á Kötlu.
„Þetta er flott,” sögðu þær brosandi þegar hún kom út úr klefanum. ,,Finnst þér það ekki?” Þær biðu ekki eftir svari. Ýttu henni aftur inn í klefann, fundu til fleiri flíkur og biðu spenntar eftir að sjá hana í þeim.
Eftir að hafa snúið sér í óteljandi hringi fyrir kríuger var Katla úrvinda.
En kríurnar urðu æ æstari, brostu, klöppuðu og voru óstöðvandi. „Já, já, já, já,” sögðu þær og blikkuðu sífellt. Augnlok Kötlu þyngdust.
4. Kafli
Að morgni fimmta dagsins á Suðurskautslandinu komst Katla loks að speglinum. Hún þekkti sig varla. Kríurnar könnuðust hins vegar sífellt betur við sig eftir því sem fleiri hausar birtust í speglinum í einu.
Við morgunverðarborðið sló formaðurinn í glas og tilkynnti að í dag ætluðu þær aftur í verslunarleiðangur. Mikil fagnaðarlæti brutust út.
En Katla ákvað að njóta einveru til að reyna að finna sjálfa sig aftur. Hún fór í fjallgöngu til að skoða lækningajurtirnar sem hún hafði heyrt að leyndust á þessum merka stað.
Hún tók til poka, setti hárið upp í bing og skellti sér í víðan og þægilegan kjól. Í vasana setti hún skæri og stóra yfirlitsbók um jurtir á suðurhveli.
Ferskt loftið kitlaði hana, kyrrðin nærði og einveran fyllti hana orku. Hún gekk endurnærð niður af fjallinu.
Þegar kríurnar komu heim úr verslunarleiðangrinum fundu þær Kötlu uppi á hótelherbergi. „Við ætluðum að fara að versla í dag,” sögðu þær.
„Ég fór að tína úr flóru svæðisins. Ég var svolítið þreytt og þurfti að vera ein,” sagði Katla og brosti vinalega til kríanna. ,,Mér fannst ágætis hugmynd að nýta þessa ferð til að skoða þær sjaldgæfu jurtir sem hér er að finna, sem geta betrumbætt seyði, þið skiljið,” sagði hún og blikkaði kríurnar.
En hópurinn horfði á hana eins og hún hlyti að hafa stigið á fugl á leiðinni niður fjallið. Hún hafði ekki ætlað að reita þær til reiði.
,,Við komum hingað til að vera saman!” sagði formaðurinn óvenju skrækrödduð.
Kríuhálsarnir snerust snöggt og allir sem einn að formanninum.
Þegar ekkert fleira heyrðist frá honum fóru kríurnar að hrista sig og ganga í hringi hver innan um aðra. Loks rétti formaðurinn sinn stóra hvíta fingur hátt í loft, lagaði til fjaðrir sínar og sagði: ,,Kórnum er boðið á ballettsýningu mörgæsanna í kvöld. Allar í Miðstöðina að kaupa bleik mittisbönd við hvítu kjólana, koma svo kríukór!” Hópurinn svaraði: ,,Koma svo kríukór, kríukór! ”
,,Hafið ekki áhyggjur af mér. Hitti ykkur á ballettsýningunni,” sagði Katla glaðlega fyrir daufum eyrum hópsins sem ummyndaðist í rennandi læk og leið niður í Miðstöðina.
5. kafli
Katla hafði aldrei liðið eins og lækur með vinum en minntist með hlýju stunda sinna með skýjunum, sem fengu huga hennar til að reika.
Hún hafði svo oft valhoppað berfætt undir gráum skýjum og þegar skýin brustu, lagst í grasið með ormunum, fundið lyktina af moldinni sem grasið ruddi þegar það að teygði sig í átt til sólarinnar.
Á tíu ára afmælisdaginn fékk hún svo grófa ullarsokka og þykk svört stígvél frá mömmu sinni og pabba. Þau sögðu að tær trölla væru ekki augnayndi og tröllum bæri að ganga þunglamalega og með annan fótinn á undan hinum.
Kannski gæti hún, í þessu fjarlæga landi, lagst á jörðina, sett kræklóttu tærnar sínar upp á einn af þessum stóru mosavöxnu steinum og látið vindinn leika um þær.
Hún fór varlega úr hægra stígvélinu og sokknum. Tærnar voru gráar og mosavaxnar. ,,Hah! Sjáiði þetta!‘‘ Sagði Katla við steinana. Hún dillaði tánum og mátaði þær við stein sem brosti og bauð henni að hvíla lúna fætur.
Ljósgrænn mosinn sem umlukti steininn og ljósblár himinninn sem lagðist ofan á maga hennar, kunnu vel við nærveru hennar og buðu góða nótt.
Auðvitað þurftu kríurnar að koma þar að, hvellandi sem aldrei fyrr: ,,Systur þínar treystu á að þú kæmir og tækir þátt í lúsatínslu fyrir ballettsýninguna. Svo erum við að fara að syngja fyrir mörgæsirnar, -varla ætlar þú að liggja hér?”
Katla opnaði augun og horfðist loks í augu við kostnað trölla af því að fá að vera hluti af hópi.
,,Ég held ég taki flugið heim í dag,” sagði hún og dillaði tánum.
Kríurnar göptu.
,,Þið getið ekki verið neitt annað en kríur og ég get ekki verið neitt annað en tröll. Ég á heima í fjallinu fagra, þangað sem enginn nema hrafninn gerir sér ferð án erindis. Þið ferðist alltaf saman í flokkum og farið inn og út af fjölmennum tónleikum. Ég vildi það sem er ykkar og þið vilduð að ég væri eins og þið,‘‘ sagði Katla.
Það létti á hjarta hennar.
Þegar hún leit yfir hópinn sá hún að þær voru allar með galopinn munn og augu.
Það sló á svo djúpa þögn að hún myndaði vegg.
Loks leit formaðurinn yfir hópinn og sagði ,,Við botnum ekkert í því sem þú ert að segja. Þú verður bara að hætta þessu. Annars vill enginn vera með þér. Allir snúa við þig bakinu.‘‘
Í takt og allar sem ein sneru þær nú bakinu í hana.
,,Sáuð þið tærnar á henni! Hahahahaha‘‘ heyrði hún um leið og þær flugu sína leið.
Katla stífnaði öll, var hún að breytast í stein?
Hún teygði sig í áttina að sokkinum og hugsaði ósjálfrátt: ,,Ég hefði átt að hlusta á foreldra mína. Það vill enginn sjá tærnar á tröllum, tröll eru ekki eins og þau eiga að vera vegna þess að þau eru ekki eins og neinn annar.‘‘
Svo lokaði hún augunum fast og leitaði að svari. ,,Nei, ef ég hefði ekki átt að vera eins og ég er, þá væri ég öðruvísi. Ef ég væri eins og kríurnar þá væri ég ekki að malla seyði fyrir dýrin í skóginum og bæta þau með orðum og umhyggju.‘‘
Ef kríurnar væru eins og ég þá væru engir tónleikar og ef þær væru ekki svo árásargjarnar þá kæmust engir ungar á legg.
En ef kríurnar myndu skilja þetta þá væru þær ekki kríur.
Að vera yfirgefin er svo sárt, en ef ég gæti ekki fundið til þá gæti ég ekki heldur búið til lækningaseyði.
Þess vegna er ég þakklát fyrir að geta fundið til.‘‘
Hún hætti við að troða sér í sokkinn en reif þess í stað af sér vinstra stígvélið og sokkinn.
Hún virti fyrir sér tærnar báðum megin áður en hún rifjaði upp léttu sporin og gekk rakleitt upp í næstu vél heim.
6. Kafli
Hún óð í gegnum skóginn sem umlukti fjallið og kleif það fyrir myrkur. Fjallið sem hafði verið svo ósköp einmana án hennar, innan um öll þessi tré.
Þegar Katla kom inn í hlýtt og rökkvað eldhúsið heyrðist krunkað.
Svartur flaug inn um opinn gluggann.
,,Nú hefur friðurinn og róin fyllt húsið á ný, ‘‘ sagði hann.
,,Þær skildu mig eftir til að verða að steini og ég skildi þig eftir‘‘, sagði hún.
,,Þú skildir mig ekki eftir. Þú þurftir að fara til að vita hvar þú ættir heima,‘‘ sagði hann.
Farið að syngja, kríuger.
Ég fer með jurtirnar heim með mér.
Ef tröll verður kría, hver þrammar þá
um skóginn og tínir gegn löstum og vá?
Svartur er vinur sem breytingar sér
hann kann að vera ólíkur mér.
Ef söngurinn brestur þá vitið þið hvar
þið eigið seyði og samastað.
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir