Oddný Björg Rafnsdóttir, Kristín S. Bjarnadóttir og fleiri standa á bak við góðgerðasamtökin Vonarbrú, sem styrkja ungar barnafjölskyldur á Gasa.
Heimsbyggðin hefur endurtekið fengið fréttir af því undanfarið að fólk sem er að sækja sér mataraðstoð sé drepið við þá iðju. Þá hafa borist fréttir af því að markaðir á Gasa séu tómir.
Ég setti mig því í samband við samtökin til að leita svara við því hvort aðstæður útilokuðu að peningar sem bærust, kæmu að notum. Eins lék mér forvitni á að vita hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að peningar lentu í höndum annarra en fólks í neyð.
Oddný Björg Rafnsdóttir sat fyrir svörum.
Oddný Björg Rafnsdóttir
Í ljósi frétta af tómum mörkuðum og að hjálparstöðvar séu dauðagildrur, hvernig getur fólk treyst því að peningar sem fara til Vonarbrúar nýtist til að kaupa mat og aðrar nauðsynjar fyrir fólk í neyð?
Hjálparstöðvar sem dauðagildrur
Við reynum allt sem við getum til að hjálpa fólki með peninga framlögum, svo það þurfi ekki að sækja sér þessa neyðaraðstoð, sem er í raun sérhönnuð dauðagildra, eins og þú nefnir.
Á hverjum degi fæ ég fréttir frá einhverjum vina minna um að ættingi eða vinur hafi verið myrtur á þessum stöðvum. Í dag voru það þrír ungir menn úr sömu fjölskyldu. Í gær bróðir vinar. Í fyrradag vinur ungs vinar míns. Hann var drepinn á sama stað og mágur vinar míns var myrtur, akkúrat mánuði áður. Sá maður er sá fyrsti sem Vonarbrú missti. Eins og ástandið er verður það kraftaverk ef öll hin sem við höldum utan um lifa af.
Markaðirnir
Það koma örfáir bílar á dag með vörur frá Ísraelum, sem oftast enda á mörkuðunum, þar sem Ísraelar hafa viðurkennt að vernda glæpagengi sem stela neyðaraðstoð og selja á þessum mörkuðum.
Ef fólk fær ekki styrki til að kaupa mat á þessum mörkuðum þá neyðist það til að hætta lífinu til að reyna að nálgast neyðaraðstoðina.
Þar til friðargæslulið og alþjóðlegar hjálparstofnanir fá að fara inn til að stjórna úthlutun á neyðaraðstoð, verðum við að nýta þær leiðir sem við höfum til að bjarga mannslífum. Þetta er eina leiðin sem Ísrael, með stuðningi USA og EU, býður fólkinu á Gasa upp á, til að ná sér í fæðu.
Vídeó samtal Oddnýjar við Aisha
Margir hafa séð auglýsingar sem virðast vera frá fólki á Gasa, þar sem verið er að biðja um fjárhagsaðstoð. Hvernig er hægt að greina á milli auglýsinga sem eru raunverulega frá fólki í neyð og auglýsinga frá fólki sem er að notfæra sér ástandið?
Við sem vinnum í sjálfboðaliðavinnu fyrir Vonarbrú notum nokkrar leiðir til að staðfesta að fólk sé að segja satt og rétt frá;
a.Við tökum vídeó samtal við fólk í björtu. Þar sjáum við andlitin. Við viljum sjá innandyra, hvort sem fólk hefst við í herbergjum, íbúðum eða tjöldum. Lang flest eru í tjöldum. Í sama samtali viljum við sjá umhverfið utandyra.
b. Við skoðum líka Facebook prófíla hjá fólki. Ef það er lítið efni þar inni, skoðum við málið betur.
c. Við skoðum einnig safnanir fólks.
Ég mæli með að fólk finni sér eina fjölskyldu og einbeiti sér að henni. Það má hafa samband við mig ef fólk langar að verða vinur á Gasa en treystir sér ekki í að kanna málið sjálf.
Þeir sem geta ekki gefið pening geta líka aðstoðað. Það er t.d. ótrúlega mikil andleg hjálp fyrir fólk á Gasa að fá fallegar kveðjur og umhyggju frá heimi sem virðist hafa yfirgefið þau.
Þú segir að fólk geti lagt inn á reikninga einstaklinga á Gasa. Hvert er þá hlutverk Vonarbrúar?
Við urðum fljótt varar við það þegar við byrjuðum að deila sögum fjölskyldna á samfélagsmiðlum, að það var erfiðara að fá fólk til að leggja inn á safnanir hjá fólki á Gasa en að leggja inn peninga á okkar persónulegu bankareikninga og við sáum um að koma því til skila. En við erum víst bundin að lögum hvað varðar safnanir og einnig hversu mikið af peningum við, sem einstaklingar, megum senda úr landi.
Neyðin og regluverk bauð því ekki upp á annað en að stofna félag. Það var aldrei á planinu að verða að félagi. Þetta er tilurð Vonarbrúar.
Zena, Yomna og Sara senda Vonarbrú þakkir með þessari fallegu mynd.
Við skoðum innkomu á söfnunarreikningum og sjáum þá fljótt hvort hægt er að lifa af á því sem kemur þar inn. Stundum kemur í ljós að fólk er að fá mikið inn á sínar safnanir á meðan aðrir fá lítið sem ekkert.
Vonarbrú er ætlað að jafna úthlutun og grípa fólk þegar eitthvað kemur upp á eins og veikindi, lyfjakostnaður, flutningar vegna brottskipanna og þegar þörf er á nýjum tjöldum (20 mínútum áður en ég skrifaði þetta fékk ég fréttir af því að tjald hefði verið sprengt á Mawasi. Þegar ég vakna í fyrramálið mun ég frétta hvaða fólk var inni í tjaldinu).
Verðlag á Gasa
Hvernig er verðlagið á Gasa?
Verðlag fer eftir framboði og breytist dag frá degi. Ég gerði verðkönnun 31.07.
Hveiti 3-4.000,- kr./kg.
Þurrmjólk og barnamat er erfitt að finna og mjólkin kostar um 35.000,- kr./kg.
Tómatar eru á um 3.000,- kr./kg.
Sykur kostar rúmlega 20.000 kr./kg.
Bleyjupakki 20-30.000,- kr.
Og fyrir kaffi þyrsta Íslendinga þá er kg af kaffi á 50-60.000,- kr.
Kjöt hefur ekki sést í marga mánuði.
Ef þú finnur egg kostar það 1.500 - 2.000 kr./stk.
Ávextir fást ekki, nema vatnsmelónur sem eru nú seldar í sneiðum á um 1.000,- kr. (heil melóna hefði ekki kostað meira en 300,- kr. fyrir tveimur árum).
Síðustu vikur hefur þurft minnst 125.000,- til að lifa af vikuna. Þá er ég bara að tala um vatn, mat (og lítið af honum), miðað við meðal fjölskyldu; tvo til þrjá fullorðna og tvö til þrjú börn, þar af eitt bleyjubarn.
Hvað líður langur tími frá framlagi til Vonarbrúar og þangað til peningurinn er kominn til fjölskyldu?
Það fer eftir því hvernig framlögin eru send. Sum eru með PayPal reikninga sem hægt er að senda framlög á. Það fer nánast samstundis í gegn. Önnur fá send framlög á bankareikninga. Það tekur yfirleitt frá einum bankadegi að fjórum. Þá fá sumir sína styrki í gegnum persónulegar safnanir og sá sem er ábyrgðaraðili fyrir söfnuninni sér þá um að koma peningunum til skila.
Hafið þið reynslu af því að þessi framlög hafi raunverulega hjálpað einhverjum eða bjargað lífum?
Kraftaverkin sem ég hef séð á þessu rúma ári sem ég hef hjálpað fjölskyldum á Gasa eru svo ótal mörg.
Mig langar að nefna Vinkonu mína Amany, sem er einstæð móðir. Hún rataði til okkar Kristínar Bjarnadóttur í nóvember í fyrra. Við Amany tölum saman á hverjum einasta degi. Þegar við hófum samskipti var hún ófrísk, með rúmlega eins árs gamla dóttur og tvær fósturdætur, sex og átta ára. Hún var á götunni og átti lítið sem ekkert. Við höfðum hraðar hendur og gátum hjálpað með tjald, dýnur, teppi og mat. Amany eignaðist heilbrigðan son í endaðan febrúar og hann dafnar og þroskast vel. Það er einungis vegna þess að við höfum aðstoðað Amany, svo segir hún sjálf.
Við eigum mörg kraftaverka börn, meðal annars fyrirbura sem vegna styrkja frá Íslandi hefur náð að þroskast við hræðilegar aðstæður.
Nú nýlega ruddust skriðdrekar yfir tjöld einnar af okkar fjölskyldum. Þau flúðu á hlaupum, með lítið sem ekkert með sér, annað en lífið, undir kúlnahríð. Þetta er fjölskylda sem ber ábyrgð á mörgum börnum. Nokkrum dögum eftir að þetta gerðist var búið að kaupa nýtt tjald og setja það niður á nýjum stað sem fannst eftir mikla leit.
Hér þakkar Ahmed ZA fyrir sendingu frá Vonarbrú sem dugði til að kaupa hveiti fyrir öll þessi systkinabörn og fjölskyldur þeirra.
Vegna Vonarbrúar eru langflestar af okkar fjölskyldum með skjól yfir höfuðið. Vonarbrú aðstoðar mörg við að borga leigu. Hvort sem er fyrir nöturlegt húsnæði eða leigu undir land.
Við erum svo sterk þegar við leggjum saman. Við getum gert hluti sem eru okkur sem einstaklingum ofviða.
Fyrir þá sem vilja hjálpa til, hvað er reikningsnúmerið hjá Vonarbrú og hvernig getur fólk komist í samband við fólk í raunverulegri neyð?
Hægt er að skoða Facebook síður hjá fólki eins og mér. Veggirnir okkar eru fullir af fólki í leit að aðstoð. Facebook síðan “Safnanir og styrkir fyrir fólk frá Palestínu” er full af beiðnum um aðstoð.
Reikningsnúmerið hjá Vonarbrú: Kt. 420625-1700, banki 0565-26-006379
Kærar þakkir fyrir svörin Oddný.
(Við vinnslu viðtalsins bárust óljósar fréttir af því að nú væri hægt að kaupa niðursoðinn fisk á mörkuðum á Gasa.)
(p.s. allar myndir eru úr safni viðmælanda)