Annáll 2021 (31. des 2021)
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 14. júlí 2022
Á árinu er ég búin að starfa í afleysingum í unglingadeildum þriggja grunnskóla á Akureyri.
Í vor komst ég að því að hægri maðurinn sem ég giftist væri í raun vinstri maður. Eldri sonur okkar kallar hann kommúnista. Skúli er ekki þekktur fyrir annað en að taka hlutina alla leið. Hann gerði enga undantekningu á þeirri reglu að þessu sinni, heldur þáði sæti á lista sósíalista fyrir alþingiskosningarnar í haust.
Skúli fór í langþráða laser augnaðgerð í sumar, svo núna þarf hann ekki lengur að ganga með gleraugu. Ég hef því tekið við kyndlinum sem gleraugnaglámur fjölskyldunnar. Sumarið einkenndist að öðru leyti af dýrmætum tíma með fjölskyldunni. Við kláruðum að gera upp kjallarann og unglingurinn á heimilinu hefur notið góðs af því. Unglingurinn sem byrjaði í 10. bekk í haust og spyr sig þessa dagana hvert hann vilji stefna að ári liðnu.
Sem kennari í unglingadeild finn ég hvað tíundu bekkingar eru margir áhyggjufullir. Það er engu líkara en mörgum þeirra finnist að framtíð þeirra ráðist í vor. Nú sé annað hvort að stökkva eða gera langtíma leigusamning í kjallaranum hjá foreldrum sínum og fá sér fasta vinnu í Bónus. Mér finnst áhyggjur tíundu bekkinga vera of miklar miðað við aðstæður.
Í ágúst fór Skúli að læra Rafiðnfræði í HR. Ég hef ekki hugmynd um, um hvað námið snýst. Í ágúst byrjaði ég að lyfta lóðum eftir að hafa sannfært Skúla um að lóðalyftingar væru bara alls ekki ég.
Frá október hef ég verið að kenna í unglingadeild Lundarskóla, sem hefur aðstöðu í Rósenborg, gamla barnaskólanum á Akureyri, fyrrum Barnaskóla Íslands, (Akureyringar hafa lag á því að orða hlutina af auðmýkt).
Það sem mest er um vert er að afi minn hann Guðmundur Gunnarsson heitinn gekk í þennan skóla sem lítill drengur. Það er gott að hafa hann með mér í anda, hlaupandi um gangana í skólanum.
Í sumar fór yngri sonurinn í sveitina til ömmu Drífu og afa Skúla og var lengi. Hann fór einnig til Vestmannaeyja með mömmu og pabba í marga daga (en pabbi var að leysa af í eynni). Eldri strákurinn okkar vann í unglingavinnunni, hitti og spilaði með vinum. Svo fór hann í sveitasæluna og einn dag til Vestmannaeyja með mömmu og pabba.
Skúli og amma Dadda fóru á eldfjallasvæðið með strákana okkar.
Mikil og góð samvera fjölskyldunnar í sumar var sérstaklega dýrmæt þegar horft er til baka, í ljósi þess að um miðjan október misstum við tengdaföður minn, hann Skúla Lýðsson.
Tengdapabbi hafði verið mjög veikur í nokkur ár. Hann vissi að hann fengi heilsuna ekki aftur. Hann missti þó aldrei sjónar á því sem hann gat stjórnað. Hann var það sem kallað er ,,headstrong'', afar ákveðinn og með óvenju sterkan vilja. Um leið var hann mjög tilfinningaríkur. Ég hef aldrei áður kynnst manni sem var eins geðgóður alla tíð. Fegurðin í nánum tengslum hans við fjölskylduna skipti miklu.
Við fjölskyldan dvöldum tvær nætur fyrir austan vegna jarðarfararinnar. Fjölskyldan hittist og myndaalbúm voru dregin fram. Í einu albúmi fundum við mynd af Skúla mínum sem ungum ljóshærðum dreng. Já, það er svo merkilegt að hann var ljóshærður, þó að hann fengi síðar nánast svartan makka.
Þegar yngri sonur okkar, sem lengi hefur verið að leita sér að nýrri hárgreiðslu, sá myndina, áttaði hann sig á að hann lítur út nánast alveg eins og pabbi hans, sem lítill drengur. Stóri munurinn var að strákurinn okkar hefur verið með sítt hár í mörg ár.
Hann hafði verið að leita sér að nýrri hárgreiðslu í nokkra mánuði en var óviss um hvað myndi passa honum. Myndin af pabba hans sýndi honum svart á hvítu hvernig hann myndi líta út með nákvæmlega sömu hárgreiðslu. Þar með fengu lokkarnir að fjúka, við fagnaðaróp bæði móður- og föður amma hans.
Yngri drengurinn byrjaði í rafíþróttum í vetur og tekur nú strætó á æfingar tvisvar í viku. Hann hefur áhuga á svo mörgu. Hann er mjög listrænn og því til staðfestingar fékk hann ,,Framúrskarandi'' í myndmennt. Hann er einnig með glimrandi einkunnir í stærðfræði. En við foreldrarnir höfum ekki áður fundið jafn mikinn áhuga hjá honum á neinu eins og rafíþróttum. Við erum því mjög ánægð að hann hefur fundið sig í því.
Amma Ósk veiktist af Covid, á tíræðisaldri, óbólusett. En hún neitaði að fara með manninum með ljáinn. Það kom einfaldlega ekki til greina! Hún var aldrei til viðræðu um að fara neitt.
Daginn er farið að lengja en ekkert er nýtt undir sólinni, eða hvað?
Fólk fer kannski að lyfta lóðum eftir að hafa afneitað þeim sem tækjum djöfulsins. Fólk verður kannski hægrisinnað eða vinstrisinnað, dökkhært eða stutthært. Fólk heldur áfram að læra og verður vonandi viturt fremur en biturt.
Kófið hefur gert það að verkum að við höfum ekki átt eins margar samverustundir með stórfjölskyldunni eins og oft áður en þessi fjandi mun gefa eftir að lokum!