Rúlluðum norður, rúnuð og sæl eftir árlega jóla&áramóta svallveislu í boði Drífu (tengdó).
Restin af janúarmánuði fór í að segja grísum að setjast, standa í röð og tala fallega, á milli þess sem ég skellihló, vegna þess sem flæddi út úr þessum litlu munnum; Allt einlægt og óritskoðað en á sama tíma algjörlega óviðeigandi og óþvegið.
Í febrúar byrjuðu sýningar hjá leikfélaginu Eflingu þar sem Guðmundur fór með nokkuð stórt hlutverk og sló í gegn.
Páskarnir voru í mars. Við vörðum þeim að mestu leyti á Keldum hjá tengdó. Það kom sér vel þar sem fjölskyldan var að miklu leyti búin að missa mýktina sem áunnist hafði um jólin.
Í kringum páskahátíðina vörðum við Kolbeinn bróðir einnig talsverðum tíma í geymslum foreldra okkar. Við flokkuðum, fleygðum og endurröðuðum. Í geymslunum er aðallega alls konar sem enginn notar né veit að er til. Allt hefur það þó merkingu segir pabbi, sem lifir fyrir hugmyndir, merkingu og tilgang.
Í krafti innsæis síns og djúps skilnings á gangverkinu í hjarta mannsins, hefur hann vissulega náð að styðja, styrkja og endurreisa sálir í tonnavís. Hann hefur hins vegar engan skilning á praksískum hlutum á borð við eldamennsku og getur ekki með nokkru móti greint á milli þess sem á heima á haugunum og þess sem sómir sér vel í geymslunni.
Fór með mömmu í langa göngu um miðbæ Reykjavíkur. Þar þekkir hún allar holur, beygjur og steina, enda skoppaði hún þar um sem smákrakki og gleypti þá bæinn í sig. Sagði mér frá Grjótaþorpinu þá og nú: Ömmunni í þorpinu sem sá að allt voru þetta hennar börn, hvaðan sem þau komu, mörgum til heilla. Hún sagði mér einnig frá ilmhúsinu svarta sem við hyggjumst sækja.
Í apríl skipti ég mér af kjarabaráttu kennara með greinaskrifum.
Frá maí dittuðum við að húsinu okkar, komum kjallaranum aftur í stand, keyptum nýja glugga á húsið, og létum gera dren.
Í júní hætti ég að vinna í Oddeyrarskóla. Mun sakna ormanna og starfsfólks grunnskóla vegna þess að þetta er upp til hópa dýrategund sem nærist á hugmynd um hvernig það vill að heimurinn sé og mætir svo á hverjum degi til að byggja þann heim.
Í júní fór Guðmundur einn til útlanda til að heimsækja vin sinn og fjölskyldu hans.
Fjölskyldan plantaði saman 10.000 trjám í skógræktinni á Keldum. Guðmundur varð eftir í sveitinni og vann í því að mála, rífa upp gamlar girðingar og fleira fyrir ömmu sína.
Jón Ari byrjaði að vinna í Bónus.
Seint í júní fórum við á ,,Níu líf’’, hittum þar Friðrik frænda í hettupeysu og konuna hans sem skar sig mjög frá honum, enda virðuleg kona.
Komum við á Bessastöðum þar sem var opið hús og kvöddum þann sköllótta.
Í júlí byrjaði Skúli að vinna hjá Instavolt. Það var mikið gæfuspor vegna þess að þar fullnýtir hann menntun sína og fyrirtækið trítar starfsfólk vel.
Í júlí héldum við Skúli upp á 20 ára brúðkaupsafmælið okkar með því að fara til London í leikhús, á Abba o.fl.
Í sumar hellti ég mér í grúsk um stöðu útlendingamála í Evrópu. Í ágúst var ég komin með góða yfirsýn og nokkuð djúpan skilning á stöðunni frá mörgum hliðum, að mínu mati. Skrifaði grein um það sem ég lærði. Í stuttu máli var niðurstaða mín sú að það er mikil upplýsingaóreiða í málaflokknum. Fjöldi fólks á þvinguðum flótta er í hæstu hæðum og til eru margvíslegar gagnreyndar leiðir til að takast á við vandann á uppbyggilegan hátt.
Í ágúst byrjaði ég í ML námi í lögfræði, átta árum eftir að ég útskrifaðist með BA gráðu í þeirri fræðigrein. Það var stressandi að byrja aftur. Fannst ég þurfa að sanna mig, var ég orðin of gömul til að læra? Svar: nei. Gaman, gaman, þreyta, þreyta, jólafrí.
Í október var ég föst í helli sem heitir HA.
Jón Ari fór í júdó æfingaferð til Skotlands í nóvember.
Í sama mánuði datt Skúli óvart inn á æfingu í júdó, en hann hélt að hann væri þarna mættur til að fara á foreldrafund. Nú stundar hann júdó tvisvar í viku, ,,með nokkrum öðrum pöbbum með bumbu’’, eins og hann orðar það. Fær gula beltið von bráðar.
Annað markvert sem gerðist í nóvember var að Guðmundur okkar varð 18 ára. Þar með öðlaðist hann frelsi og sjálfræði á meðan foreldrar hans misstu öll völd.
Í desember kláraði ég fyrstu önnina af fjórum í ML náminu í lögfræði.
Jón Ari fékk appelsínugula beltið í júdó.
Guðmundur skrifaði sína fyrstu bók.
Nýfengið frelsi sitt og sjálfræði notaði Guðmundur til að ákveða að vera ekki með okkur á jólunum, heldur hjá partýhaldaranum ömmu sinni. Hann tók litla bróður sinn með.
Skúli er að vinna um jól og áramót þannig að við, þessi valdalausu, verðum tvö í kotinu yfir hátíðirnar. Það gerðist síðast fyrir nákvæmlega tuttugu árum, þegar við bjuggum á stúdentagörðum HÍ.
En við erum sem betur fer einföld og þurfum því ekki margt; Keyptum risalamande og grísahrygg í Bónus, ég hef legið í gólfunum og skúrað meðan Skúli hefur lagaði innstungur og ljós fyrir hátíðina.
Svo kemur birtan með ilminum af svíninu, og tárin og fegurðin með óskunum um gleðileg jól úr útvarpinu.
Orgeltónar.
Takk fyrir árið, þetta hefur verið ferðalag, skóli, sorgir og sigrar.
Og enn á ný er upphaf.