Jólin 2021 gaf Friðfinnur mömmu og pabba óróa í jólagjöf.
Óróa með fuglum sem standa þétt saman.
Einn fugl fyrir hvern fjölskyldumeðlim.
Mamma og pabbi sitja efst og verja hina sem neðar sitja.
Systkinin fjögur sitja fyrir neðan ábyrgðarmikla foreldra sína.
Friðfinnur hafði látið gera sjálfan sig að dökkum fugli vegna þess að hann var svarti sauðurinn í fjölskyldunni, sagði hann.
Hann hafði húmor fyrir sjálfum sér og við hlógum öll því þetta var satt þó það væri líka nístandi sárt. Og hvar værum við ef við gætum ekki hlegið saman?
Fyrir neðan okkur systkinin eru börnin í fjölskyldunni, Guðmundur, Jón Ari, Sóley María, Benedikt Kári og lítið blóm. Óróinn prýðir stofuna, samverustað fjölskyldunnar.
Janúar 2022
Árið byrjaði á að öll fjölskyldan greindist með Covid og var dæmd í sjö daga einangrun.
Amma Ósk hafði glímt við heilabilun um nokkra hríð. Sjúkdómurinn reyndist lausn á öllum hennar vandamálum. Að minnsta kosti kannaðist ekkert okkar við þessa glaðlyndu og þakklátu konu.
Í janúar greinst hún, óbólusett, með Covid, sigraðist á þeim fjanda og ákvað að fara yfir móðuna á öðrum fararskjóta.
Hún var orðin svo hress af pestinni áður en hún dó að hún náði að lokum stjórnartaumunum á Grund, þar sem hún ríghélt í fjarstýringuna og tók aftur til við þann gamla sið að kvarta, það gladdi okkar litla hjarta.
Að öllu gamni slepptu þá hafði hún alltaf þurfti að stóla á sjálfa sig og hvað gerir maður þá, ef maður ætlar að lifa af, jú maður stjórnar öllu í kringum sig. En þó svo hún hefði þurft að standa ein undir sjálfri sér þá lét hún ekki sitt eftir liggja fyrir aðra t.d. þegar fólk lá eitt heima hjá sér, banaleguna. Hún var þar.
Í febrúar skrifaði ég pistil um mögulegan hugarheim Pútíns, vegna ástandsins í Úkraínu. Í kjölfarið hitti ég Kára Stefánsson og spurði hann út í illskuna í erfðaefninu og illskuna í huga Pútíns. Viðtalið birtist í Kjarnanum í mars.
Í mars kvaddi amma hans Skúla, amma Jenný. Kona sem hafði sjálf þurft að kveðja tvo syni og eiginmann. Það var sérlega mikil reisn yfir henni alla tíð. Enginn komst upp með neitt misjafnt gagnvart henni né hennar fólki. Hún lét aldrei bugast.
Vegna áframhaldandi átaka í Úkraínu fór ég að hafa áhyggjur af kjarnorkumálum og endurbirti því grein sem ég skrifaði í tengslum við meistaranámið, um kjarnorkuafvopnun.
Í apríl birti ég á heimasíðunni minni sögu sem ég hef verið mörg ár að skrifa þó stutt sé. Tröllasöguna.
Í apríl bugaðist ég undan álagi. Sú viðkvæmni er ekki bara veikleiki heldur á sama tíma lykillinn að því að ég næ að tengjast fólki, t.d. nemendum, viðmælendum og samferðamönnum, þannig að margir treysta mér fyrir sínum málum og mér þykir mjög vænt um það. Tengsl eru tilgangur að mínu mati.
Í maí vann Úkraína Eurovision þrátt fyrir að vera ekki með sterkasta lagið. Úkraína mun svo sigra stríðið, þrátt fyrir að vera ekki kjarnorkuveldi eða með sterkasta herinn.
Í júní útskrifaðist Guðmundur með glæsibrag úr grunnskóla og hélt ræðu í útskriftinni. Hann fór í kjölfarið í langþráð fermingar- ferðalag (tveimur árum eftir ferminguna) til Danmerkur með afa Kristni, ömmu Döddu og mömmu.
Tengdamamma var sæmd fálkaorðu þann 17. júní.
Í ágúst komu Friðfinnur og Sonja í heimsókn til Akureyrar. Við fórum saman í Hauganes, þar sem hann synti í sjónum og hlýjaði sér svo í pottinum með litla frænda sínum.
Í ágúst birti ég viðtöl og umfjöllun í Stundinni, um kjarasamningana. Stundin vildi áframhaldandi samstarf. Á svipuðum tíma hafði ég fengið inngöngu í spennandi meistaranám í HA og boð um að taka að mér umsjónarkennslu í þriðja bekk í Oddeyrarskóla. Ég ákvað að taka að mér þessa þrettán jólasveina í Oddeyrarskóla. Sveina sem ég hef nú ættleitt á einu bretti.
Þetta var afar farsæl ákvörðun enda fékk ég um leið bestu yfirmennina.
Vinur minn hann Hilmar Kol dó í haust.
Í haust hóf Skúli seinna árið sitt í rafiðnfræði við HR.
Jón Ari byrjaði í unglingadeild (8. bekk) en einnig í fermingarfræðslu. Þá byrjaði hann aftur að læra á harmonikku, hljóðfæri djöfulsins, eins og hann segir sjálfur.
Í október sá ég Friðfinn í síðasta skiptið á fallega heimilinu þeirra Sonju. Heimsóknin var besti hluti heimsóknarinnar til höfuðborgarinnar þessa helgi. Ég gladdist mjög yfir hvað gekk vel hjá honum.
Í nóvember synti Friðfinnur, margfaldur Íslandsmeistari í flugsundi og Evrópumeistari, á haf út eftir að hafa sprautað sig með stórum skammti af kókaíni. Myndir úr eftirlitsmyndavélum sem lögreglan náði að setja saman eftir þrotlausa vinnu, sýna hann stökkva yfir vegg, fara í sjóinn og synda langt út. Loks sést hann missa tökin. Slétt hafið. Óróinn hið innra sigraði óróann í stofunni.
Um leið og þetta varð ljóst markaðist lína í sandinn.
Jólagjöfin í ár er að sá tónn sem Friðfinnur sló um síðustu jól er farinn að sýna sig og mun heilsa á nýju ári. Ný von sem minnir okkur á ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru. Sem þéttir raðir fuglanna enn frekar. Um leið og við grátum fallinn fugl, þökkum við þessum einstaka bróður okkar ævintýralega samfylgd.