Ísland og umheimurinn

Hvert stefnir Ísland?

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 5. júlí 2019

(Greinin birtist 11. maí árið 2017 í Morgunblaðinu og fjallar um þjóðaröryggisstefnu Íslands)

"Forgangsraða þarf áhersluatriðum í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Sækja þarf fram í friðar- og öryggismálum með þekkingu að leiðarljósi."

Nítjánda apríl síðastliðinn stóð Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands ásamt fleiri aðilum fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu sem bar yfirskriftina Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? Dagskráin var fjölbreytt og fyrirlesararnir voru flestir sérfræðingar á sínu sviði. Þess vegna var áhugavert að greina rauðan þráð í erindum dagsins. Rauði þráðurinn var sá að þrátt fyrir að Ísland ætti í samstarfi við frændur sína á hinum Norðurlöndunum, byggði á varnarsamningi við Bandaríkin, væri aðili að NATO og hefði nýlega samþykkt lög um þjóðaröryggisráð, þá væri ekki nægilega ljóst hver stefna Íslands í friðar- og öryggismálum væri.

Í þessari stuttu grein er ætlunin að líta nánar á lög um Þjóðaröryggisráð Íslands sem tóku gildi 22. september síðastliðinn. Fyrst fjalla ég almennt um lögin og stöðu Íslands í samfélagi þjóða, þá skoða ég þá stefnu sem lögin byggja á með gagnrýnum augum. Að síðustu nefni ég nokkur sóknarfæri Íslands í öryggismálum til framtíðar.

ALMENNT

Lög um þjóðaröryggisráð marka tímamót í öryggismálum landsins, meðal annars með því að tryggja pólitíska aðkomu og stuðla að stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki. Í þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland segir orðrétt: „Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her, og tryggir öryggi sitt og varnir því með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.“

Ísland er í lykilstöðu í samvinnu á norðurslóðum. Lykilstaða Íslands helgast annars vegar af legu landsins og hins vegar byggir Ísland á mikilli vináttu við nágranna sína. Sterk staða Íslands í samvinnu þjóða á norðurslóðum gerir það að verkum að landið er mikilvægara en ella þegar kemur að auknu samstarfi NATO-ríkjanna á Norður-Atlantshafi, sem fyrirhugað er á komandi árum.

GAGNRÝNI

Í þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu Íslands eru ellefu áhersluatriði sem hafa öll „jafnt vægi“. Þannig er farið mjög vítt yfir sviðið en á sama tíma vantar forgangsröðun. Mikilvægt er að pólitískir aðilar tryggi skýra forgangsröðun bæði vegna þess að öryggismál eru í eðli sínu þung í vöfum og vegna hugmynda vestanhafs um aukna kostnaðarþátttöku þeirra ríkja sem njóta góðs af herstyrk Bandaríkjanna.

Ýmsar spurningar vakna við lestur þjóðaröryggisstefnunnar. Til að mynda varðandi þá áherslu að í landinu sé til staðar búnaður, geta og þekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Hvaða áskorunum á búnaðurinn að mæta? Er til að mynda verið að tala um fyrstu hjálp ef á okkur er ráðist, þar til aðstoð berst frá samstarfsaðilum? Og í hverju felast þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland þarf að vera búið undir?

SÓKNARFÆRI

Herlaus smáríki eru mjög háð því að alþjóðasamfélagið sé friðsamlegt. Því er eðlilegt að lönd eins og Ísland vilji geta beitt sér í alþjóðlegum friðarmálum. Á síðustu árum hefur Norðurskautsráðið verið eitt öflugasta dæmið um hverju samvinna og lýðræðislegir stjórnarhættir geta áorkað.

Áhrifamiklir sérfræðingar á borð við Lael Brainard hafa bent á að 21. öldin er tími alþjóðlegra tengsla og dreifðra valda. Þess vegna snúist völd á 21. öldinni ekki aðeins um hefð og hernaðarmátt heldur einnig um fleiri atriði, svo sem um stefnumótandi forystu. Stefnumótandi forysta byggir á gildum og birtist í getu til að kalla saman aðila, hlusta og miðla samningum um sameiginleg hagsmunamál. Lítil ríki geta því beitt sér í samfélagi þjóða ef þau hafa skýra stefnu og getu til að greina sameiginlega hagsmuni.

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2019. Vegna stöðu sinnar á svæðinu og fyrirhugaðs aukins samstarfs NATO-ríkjanna á Norður-Atlantshafi er ábyrgð Íslands mikil. Þess vegna er enn nauðsynlegra en áður að Ísland marki sér skýra stefnu um áframhaldandi uppbyggilegt samstarf.

Ákveði íslensk stjórnvöld að beita sér í alþjóðlegum friðarmálum kallar það á frekara samstarf og frekari stefnumótun, sem þarf að byggja á þekkingu. Koma þyrfti upp meistaranámi í friðar- og öryggisfræðum á Íslandi. Sérfræðikunnátta á þessu sviði hérlendis er til þess fallin að styðja við þjóðaröryggisráðið sem og forystu landsins í samstarfi þjóða um friðar- og öryggismál.

LOKAORÐ

Af öllu þessu er ljóst að mikilvægt er að Ísland marki sér stefnu sem enginn velkist í vafa um hver sé. Þá þarf að forgangsraða áhersluatriðum þeirrar stefnu. Ekki aðeins vegna öryggishagsmuna Íslands heldur einnig vegna þeirrar ábyrgðar sem fylgir sterkri stöðu landsins í svæðisbundnu samstarfi.