(Greinin birtist í Morgunblaðinu í apríl árið 2019, Ísland tók við formennsku í maí)
Í maí tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu. Formennskan verður meðal stærstu verkefna sem Ísland hefur sinnt á alþjóðavettvangi.
Hér á eftir verður stiklað á stóru um stöðuna á norðurslóðum og hagsmuni Íslands af hagfelldri þróun svæðisins. Þá verður fjallað um styrkleika og veikleika Íslands í samvinnunni. Því næst verður farið yfir hvers vegna stórauka þarf samstarf um málefni norðurslóða um leið og standa þarf vörð um þá samvinnumenningu sem um árabil hefur einkennt samstarfið. Að lokum er lagt til að settur verði á fót vinnuhópur eða sérfræðihópur á vegum Norðurskautsráðsins á sviði alþjóðasamskipta sem hefði það hlutverk að stuðla að áframhaldandi samvinnumenningu á svæðinu á þeim breytingatímum sem framundan eru.
Staða mála og hagsmunir Íslands
Hitastig hefur hækkað tvisvar sinnum meira á norðurslóðum heldur en á öðrum svæðum heims, vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þess vegna hefur hafísútbreiðsla orðið hraðari en spáð hafði verið og umferð um svæðið hefur aukist meira en áætlað var. Gera má ráð fyrir tíðari slysum í kjölfar aukinnar umferðar með tilheyrandi umhverfisspjöllum. Í skýrslu Ráðherranefndar um málefni norðurslóða (2015) segir að ekkert ríki hafi jafn mikla hagsmuni og Ísland af hagfelldri þróun á svæðinu, þar sem lífsviðurværi þjóðarinnar er að stórum hluta háð auðlindum í sjó.
Staða Íslands
Góðu fréttirnar eru að Ísland hefur tiltölulega sterka stöðu á norðurslóðum. Sú staða helgast einkum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi er Ísland eitt af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Í öðru lagi hefur Ísland ákveðna sérstöðu vegna miðlægrar staðsetningar sinnar á svæðinu. Í þriðja lagi helgast áhrif Íslands af því að Íslensk stjórnvöld hafa um árabil verið mjög meðvituð um hagsmuni Íslands og hafa því lagt sig í líma um að vinna vel úr stöðunni. Ísland hefur til dæmis gert sig gildandi með því að efla sérfræðiþekkingu sína á málefnum norðurslóða (einkum um umhverfi og lagaramma svæðisins), með því að sýna forystu í ýmsum réttlætismálum fyrir íbúa svæðisins og með því að setja málefni norðurslóða í forgang í utanríkisstefnu sinni.
Veikleikar Íslands í samstarfinu eru einkum fólgnir í því að Ísland er að einhverju leiti efnislega vanbúið til að uppfylla skyldur sínar vegna þeirra skuldbindinga sem samningar norðurskautsríkjanna leggja Íslandi á herðar. Til að mynda þarf að styrkja eftirlitsgetu Íslands á þeim gríðarstóru hafsvæðum sem Ísland ber ábyrgð á, svo hægt sé að bregðast skjótt við slysum og mengunarflekkjum.
Stórauka þarf samstarf
Íslensk stjórnvöld eru meðvituð um þessa veikleika og hafa brugðist við með því að leggja áherslu á aukna samhæfingu innlendra aðila og að stórauka þurfi alþjóðlega samvinnu um málefni svæðisins. Ísland hefur til dæmis kallað eftir aukinni aðkomufrumbyggja og áheyrnarfulltrúa Norðurskautsráðsins. Þá hafa verið uppi hugmyndir á Íslandi um að nýta betur krafta, fjármagn og mannauð, til dæmis með því að Barentsráðið verði með einhverjum hætti tengt inn í Norðurskautsráðið.
Ísland er ekki eitt á báti með þá skoðun að stórauka þurfi samvinnu á norðurslóðum. Það er til dæmis áherslumál Finnlands og Bandaríkjanna að áheyrnarfulltrúar taki aukinn þátt í vinnu á vegum Norðurskautsráðsins.Þá er mikilvægi aukins samstarfs viðurkennt af fræðimönnum á borð við Oran R. Young sem telur að á tímum mikilla breytinga og óvissu, eins og nú eru uppi á norðurslóðum, þurfi alþjóðakerfið að rúma marga mismunandi gerendur og fara margvíslegar leiðir að sameiginlegum markmiðum.
Að viðhalda góðum gildum á óvissutímum
Á sama tíma og nauðsynlegt er fara í ákveðnar breytingar, með aukinni samvinnu og þar af leiðandi aðkomu fleiri aðila að þeim verkefnum sem framundan eru, er mikilvægt að barninu verði ekki skolað út með baðvatninu. Með öðrum orðum er mikilvægt að áfram megi vænta lýðræðislegrar samvinnumenningar á svæðinu, en það er ákveðin hætta á að viðmið breytist á óvissutímum (Young). Íslensk stjórnvöld eru blessunarlega meðvituð um mikilvægi þess að ástunda og viðhalda þeirri einstöku samvinnumenningu sem ríkt hefur í Norðurskautsráðinu. Ísland hefur til að mynda gagnrýnt hvers konar hópamyndun í samstarfinu. Það er þó að einhverju leiti opin spurning hvernig viðhalda má óefnislegum hlutum á borð við samvinnumenningu.Til að renna ekki blint í sjóinn gæti verið ástæða til að bæta við vinnuhópi eða sérfræðihópi á vegum Norðurskautsráðsins á sviði alþjóðasamskipta sem hefði það hlutverk að rannsaka hvaða þættir eru líklegir til að stuðla að samvinnumenningu og lýðræðislegri þróun á tímum breytinga.