Forsíða / Pistlar / Pistill

Er skólinn úreltur?

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 25. júní 2024
Soldið sein viðbrögð af minni hálfu, vegna þess að ég er þreyttur kennari en líka vegna þess að ég veit hversu dýrmætt starf er unnið í grunnskólanum og finnst svona dagsdaglega ekki að ég þurfi að sanna það fyrir neinum.

En ok, förum í gegnum þetta:

Ef markmiðið er framfarir og að vera með puttann á púlsinum þá þurfa hlutir að vera í stöðugri endurskoðun. Það á við um allt; alla vinnustaði, byggingalist, tækni, matvælaframleiðslu, allt.

Gagnrýnið viðhorf til eigin starfa og gagnrýnin gestsaugu eru því forsendur framfara.

Tökum þessi tvö atriði fyrir í grunnskólanum:

1. GAGNRÝNIÐ VIÐHORF TIL EIGIN STARFA

Skólasamfélagið byggir á stöðugri endurskoðun sem stjórnendur og teymi fylgja eftir, ekki einusinni á ári eða nokkrum sinnum á ári og ekki mánaðarlega heldur í hverri viku.

Þessu gagnrýna viðhorfi er beitt þegar leitað er lausna við verkefnum eins og:

a)Hvernig kennarar geti hagað kennslu þannig að þeir mæti nemendahópi með mörg móðurmál.

b)Hvernig skólinn getur búið svo um hnútana að börn sem eru með áföll á bakinu eða þola illa mikið áreiti geti átt hlýlegt athvarf einhvers staðar í skólanum, til að vinna gegn skólaforðun.

c)Hvernig ólíkar starfsstéttir geti unnið saman svo börn þurfi ekki að sækja þjónustu hingað og þangað um bæinn, með tilheyrandi álagi fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.

d)Hvernig og hvenær er best að skólinn innleiði tölvur og aðrar tæknilausnir inn í kennslu og hvaða forrit og kennsluaðferðir hafa reynst best?

e)Hvenær og hvernig er best að innleiða þaulreyndar aðferðir eins og PALS inn í bekki eða stig, svo allir fái félaga við hæfi og þannig að sérkennarar komi þar að með sína þekkingu.

f)Hvernig tryggja má að börn sem lesa lítið heima þràtt fyrir stöðugt foreldrasamstarf, eða sem eru með erfiða lesblindu séu látin lesa þeim mun meira fyrir starfsmenn skólans. o.fl, o.fl.

Verkefnin eru því miður fleiri en þessi kvennastétt ræður við að sinna á dagvinnutíma.

Eitt af því sem hjálpar mjög og tíundað var hér að ofan eru ýmis konar tæknilausnir. Þær undirbúa börn fyrir það sem þau munu lifa og hrærast í og koma að einhverju leiti til móts við nemendur með móðurmál sem kennarinn skilur ekki, svo dæmi séu nefnd.

2. GAGNRÝNIN GESTSAUGU

Það er mikilvægt og dýrmætt að fá sjónarmið þeirra sem horfa á skólakerfið sem nemendur, foreldrar eða almennir borgarar, rétt eins og það er fengur í því fyrir strætókerfið, sjúkrahús og sjoppur að heyra sjónarmið þeirra sem standa ekki við búðarborðið.

En vandinn er þessi: Hin gagnrýnu augu þurfa að vera gestsaugu. Það sem ég á við er þetta: Ef þú hefur ekki komið sem forvitinn gestur og hefur ekkert vit á einhverju er skynsamlegra að tjá þig ekki um það að sinni.

ER SKÓLINN ÚRELTUR?

Það sem vakti mesta athygli hjà mér, þegar ég horfði á þáttinn ,,Er skólinn úreltur?", var að hann hverfðist aðallega um að hægt er að finna allar upplýsingar á netinu. Þannig var sjónarhornið à hlutverk skóla í samfélögum, mjög þröngt.

Annað sem mikilvægt er að nefna er að í þættinum er talað um skóla án þess að taka mið af ólíkum markmiðum yngsta- mið- og elsta stigs grunnskóla og án þess að greina á milli skólastiga.

Þá er mikill þungi lagður á það í þættinum að utanbókarlærdómur sé enn áhersluatriði í skólum en það er einfaldlega ekki rétt. Verkefnavinna og símat hefur að miklu leyti komið í stað utanbókar lærdóms og prófa.

Skólanàmsskrár leggja áherslu á nýtingu tækni og að nemendur læri að afla sér þekkingar á netinu.

Margt fleira mætti nefna eins og að ekki var fjallað um uppeldislegt -hlutverk og -gildi skóla.

Og eitt að lokum. Hvers vegna voru kennarar og annað skólafólk ekki til andsvara og til að kynna skólastarfið eins og það er í dag?

Skólinn, eins og annað, þarf að halda áfram að breytast í takt við tækni og þarfir fólks en það er sorgleg staðreynd að þau viðhorf sem birtust í þættinum eru að stórum hluta ekki byggð á þekkingu.

Forsíða / Pistlar / Pistill