Ef markmiðið er að gera góðan ís er nauðsynlegt að setja ísblöndu í frysti í ákveðið langan tíma.
Það gagnar ekki að tvöfalda hitann á sunnudagssteikinni. Steikin þarf sinn tíma.
Þetta segir sig sjálft.
Vandinn byrjar ekki fyrr en við yfirfærum slík augljós sannindi yfir á allt sem hreyfist undir sólinni og þegar gert er ráð fyrir að allir vinni alla hluti á sama hátt.
Hversu langan tíma tekur til dæmis að læra nýtt tungumál? Það er ekki til neitt svar við því vegna þess að það er mjög persónubundið og háð aðstæðum.
Hversu langan tíma tekur að skrifa 8 orða setningu? Það er ekki heldur til neitt einhlítt svar við þeirri spurningu. Það getur tekið marga daga að forma hugsun og koma henni í orð á blaði. Eða það getur tekið nokkrar sekúndur.
Hversu lengi tekur það kennara að vinna verkefni einnar vinnuviku?
Allar hendur á loft, nokkrir veifa, einhverjir eru komnir upp á borð. Allir vilja láta ljós sitt skína. ,,Fjörutíu tíma!’’, hrópar einhver. ,,Þrjátíu og sex eftir styttingu vinnuvikunnar,” segir annar glaðbeittur.
En við erum ekki ísblanda (lesist: Það þýðir ekki að mæla tímann).
Það tekur mig til dæmis mun lengri tíma að undirbúa vikuna heldur en reyndari kennara. Ég er því oft að vinna ólaunaða yfirvinnu en ég hef sætt mig við það vegna þess að ég veit að með aukinni reynslu eykst hraðinn.
Það sem ég sætti mig hins vegar ekki við er að þegar ég er orðin sneggri í snúningum þá neyðist ég til að dúsa í ofninum þangað til helvítis stimpilklukkan segir að ég sé nógu steikt.
Þess vegna segi ég: Út með lambið og stimpilklukkuna.
Inn með heilbrigða skynsemi. Þú ert búin/n að vinna þegar þú ert búin/n að vinna!