Alþjóðamál

Úkraína 27. febrúar 2022. Svona sé ég stöðuna

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 27. febrúar 2022

Pútín telur að Vesturlönd séu veikgeðja vegna þess að þau halda í heiðri gildum á borð við lýðræði, mannréttindi og fullveldi. Hann telur þessi gildi ekki aðeins veikleikamerki heldur merki um heimsku sem hann geti nýtt sér. Þá er honum sama um sannleikann, svo lengi sem sannleikurinn hentar honum ekki.

Hann telur að athafnir hans þurfi ekki að byggja á gildum, heldur komist hann upp með það gagnvart öðrum þjóðum að taka ákvarðanir í hverju tilfelli, eftir því hvað er virðist fýsilegt í augnablikinu. Hann byggir þá skoðun sína á þeirri staðreynd að Rússland er kjarnorkuveldi.

Það sem Pútín skilur ekki er að á bak við gildi á borð við lýðræði og mannvirðingu er vilji sem er andskotanum sterkari og getur unnið risa sem virðast stærri og öflugri, þegar óttanum sem bærist einhvers staðar í brjóstinu, er vikið á brott.

Pútín skilur ekki að þeir sem virða slík gildi ávinna sér að lokum traust sem opnar dyr í átt að velsæld einstaklinga og þjóða. Traust sem verður ekki sprengt upp með kjarnorkuvopnum. En traust er jafnvel meira virði en velsæld. Traust skapar vináttu og óformlegt bandalag með þjóðum sem byggja öryggi sitt einnig á því að þessi gildi, sem felast nú í alþjóðalögum, séu virt.

Það sem Pútín áttar sig ekki á er að heimsbyggðin sér skort hans á gildum og þá ætlun hans að vaða á skítugum skónum yfir reisn og réttindi annarra þjóða, jafn greinilega og hún sér súkkulaðiblett á ljósri skyrtu. Það er með öðrum orðum augljóst hversu gjaldþrota málstaður hans er.

Hinir ,,veikgeðja’’ munu því berjast af sama krafti gegn tilraunum hans til að ráðskast með ,,heimsku’’ þeirra og hafa gildi þeirra og reisn að engu, eins og þeir hafa barist fyrir gildum á borð við lýðræði og mannlegri reisn.

Það sem búllíar skilja ekki er að þó þeir geti valið að hegða sér eftir hentugleika hér og nú, þá byggir framtíð þeirra á því að þeir virði fyrirfram ákveðin gildi og reglur og ávinni sér traust.

Allar þjóðir þurfa einhvern tíman að leita á náðir annarra t.d. vegna náttúruhamfara, uppskerubrests eða annarra aðstæðna. Þá eru allar þjóðir háðar viðskiptum við aðrar þjóðir, í meira eða minna mæli, og öll viðskipti hvíla á lágmarks trausti þess að viðskiptamennirnir séu í góðri trú.

Á síðustu dögum hefur forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, vakið aðdáun fyrir hugrekki og óttaleysi þrátt fyrir, það sem sumir myndu kalla vonlausa stöðu Úkraínu.

Framganga hans, eins manns, þar sem hann stóð úti á götu í Kyiv, líkt og Davíð á móti Golíat, og sagðist ekki þarfnast þess að flýja til Bandaríkjanna heldur skotfæra og aðstoðar vestrænna ríkja, hefur blásið von í hjörtu borgara landsins og komið einu af tveimur stærstu kjarnorkuveldum heims í opna skjöldu. Hann hefur einnig náð að blása von í brjóst vestrænna ríkja.

Nú, þegar vestræn ríki hafa von, þá er ábyrgðin þeirra (okkar), að bregðast við og verja þau gildi sem lífvænleg framtíð þjóða byggist á. Þess vegna þarf að einangra Pútín með afgerandi þvingunum. Sú barátta er hafin.

Það sem mestu máli skiptir, í raun öllu máli, er að þessi gildi tryggja ekki aðeins lífvænlega framtíð heldur framtíð sem er þess virði að lifa.