(Greinin birtist 21. desember árið 2016 í Morgunblaðinu)
"Verkefni ríkja hafa aukist undanfarna áratugi. Sparnaður og endurskipulagning kalla á nýjar og skilvirkari leiðir."
Samkvæmt Landhelgisgæslunni, Landspítalanum, háskólunum og fleiri aðilum dugar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 ekki til að halda uppi viðunandi þjónustu. Þess vegna vill vinstrivængurinn auka skatta en sá hægri vill frekar skera niður á tilteknum sviðum svo að hægt sé að auka við á öðrum sviðum.
Krafa um aukin útgjöld er ekki séríslenskt fyrirbæri. Verkefni ríkja í hnattvæddum heimi hafa aukist undanfarna áratugi með tilheyrandi álagi á efnahagslíf ríkja, sem aftur hefur áhrif á stöðu velferðarríkisins. Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, hefur bent á að vaxandi kröfur um samkeppnishæfni fyrirtækja á alþjóðlegum markaði hafi þrengt enn frekar að velferðarríkinu.
Sparnaður og sú endurskipulagning sem hann krefst kallar á nýjar og skilvirkari leiðir. Marc Mitchell, aðjunkt við Harvard-háskóla í deild hnattrænnar heilsu segir að heimurinn sé orðinn það flókinn og hraðinn og breytingarnar það miklar að einhvers konar samstarf sé að verða nauðsynlegt. Þetta eigi sérstaklega við í heilbrigðismálum þar sem kostnaður sé á stöðugri uppleið, sjúkdómamynstur breytist og tækjakostur úreldist fljótt.
Reynslan hefur til dæmis sýnt að samvinna ríkja og frjálsra félagasamtaka getur leitt til skilvirkari lausna. Skilvirkni frjálsra félagasamtaka er einn helsti kostur slíkrar starfsemi. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið telja mikilvægt að frjáls félagasamtök fái aukna aðkomu að stefnumótun jafnt sem áætlanagerð og framkvæmd mikilvægra alþjóðlegra velferðarmála vegna þess að slík samtök hafi oft reynst vera í nánari tengslum við almenning, sveigjanlegri og lausnarmiðaðri en flóknar regluveldisstofnanir.
Eitt af þeim skerjum sem stjórnarviðræður síðustu vikna hafa steytt á er mismunandi áherslur í ríkisfjármálum. Mikilvægt er að taka umræðuna úr hefðbundnum skotgröfum hægri/vinstri og taka hnattræna vídd hagkerfisins með í reikninginn.
Líta þarf til þess sem virkar án tillits til þess hvaðan það kemur. Í Bandaríkjunum er til að mynda löng hefð fyrir því að nýta krafta frjálsra félagasamtaka sem þjónustugjafa. Á hinn bóginn hefur Evrópa meiri þekkingu og reynslu af því að nýta skipulag ríkisins til að skapa jöfnuð. Í hnattrænum heimi er ástæða til að Evrópa líti til Bandaríkjanna og öfugt í leit að heildrænni lausnum.
Ole Jacob Sending, forstöðumaður rannsóknardeildar norsku Alþjóðamálastofnunarinnar sem stundar rannsóknir á alþjóðlegum stjórnarháttum, telur að engin ástæða sé til að ætla að stjórnarhættir haldi ekki áfram að þróast til samræmis við nýjar áskoranir hnattvæðingar. Hann spáir því að borgaraleg samtök verði í auknum mæli beisluð til lausnar á verkefnum framtíðar.