Apríl 2022

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 14. júlí 2022
Vakna! Taktu lýsi! Ertu með leikfimidótið í töskunni? Farðu úr þessum buxum. Það er blettur à þeim. Settu à þig húfu. Farðu varlega. Elska þig. Nei bíddu það er gulur dagur í skólanum. Það er gul peysa á ofninum inni í stofu. Þvoði hana í gærkvöldi. Kattamat! Rautt ljós! Ég hef ekki tíma fyrir þetta. Àtta fréttir í útvarpinu, andskotinn, ég verð of sein. Þarf að muna að panta tannlækni fyrir strákana. Kallinn við hraðamælirinn er með skeifu. Ég meina, ég er bara á 35 km hraða! Stíg á bremsuna. Verð að fá bros frá ljósakallinum. Sko, þarna kom það ...vinna, vinna trallalla... Í Bónus. Orkudrykk og próteinstöng. Narta hana eins og hamstur í bílabúri. Er þessi orkudrykkur ekki framleiddur úr fiskroði? Hmmmm jú! Hollur hlýtur hann þá að vera. Síminn pípir. Tölvupóstur kvartar undan vanskilum á bókasafninu. SMS tilkynnir að pakki bíði á pósthúsinu. Hvenær er sagnaprófið í dönsku? Sonur hringir og spyr hvort ég geti hlýtt honum yfir, prófið sé á morgun. Já, já auðvitað. Ertu búinn að fá þér eitthvað að borða? Farðu í sturtu. Ég er á leiðinni. Skransa við heima. Já ég er að koma. Ætla bara fyrst að fá mér kaffi. Hvað segirðu at lege, leg, har legget, hvað þýðir það? Ok, segðu þetta aftur. Yngri strákurinn mætir, með spurningu um jöfnur. Já, ég því miður get bara gert eitt í einu. Kem eftir smá stund. Ok, jöfnur, sjáðu hérna er þetta útskýrt. Hvað er í matinn? Bara...Dominos? Fréttir. Ég ætla að horfa á fréttir. Það er frjálst nesti í skólanum á morgun, andskotinn. Gleymdi að kaupa það. Bruna í Extra. Hvað vilja litlir grísir? Snúða, kókómjólk. Ætlaði að reyna að komast í slakandi jóga í dag. Jæja, á morgun! Keyri heimleiðis. Ballið! Sný við og kref hraðbankann um 500 kr. Popp og svali fylgir aðgangseyrinum. Settu peninginn strax í úlpuvasann, annars gleymir þú honum kannski á morgun. Jæja, það er kominn háttatími, burstið tennur og upp í rúm! Gleymdi að horfa á fréttirnar. Gubbaði kisan? Í rúmið þitt. Ok, rúlla þessu í þvottavélina. Ég bara er orðin, eiginlega of þreytt til að setja utan um rúmið þitt aftur. En ok, ekkert annað í boði. Við nánari athugun kemur í ljós að kettinum er umhugað um jafnrétti; mín bíður líka æla til að sofa með. Sný við í dyragættinni. Klifra upp í gestakojuna. Sofna þar innan um tuskudýr og...kötturinn er mættur ofan á bakið á mér. Næsta vetur verður eiginmaðurinn heima á virkum dögum. Þá munum við hamstra og amstra saman og ná að horfa á fréttirnar eftir endurnærandi jógaæfingar. Vonin er allt.