Ævintýri í Húsasmiðjunni (frá árinu 2015)

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 15. júní 2021
Loksins er ég komin í sumarfrí. Búin að taka öll próf og skila öllum verkefnum. Nú er að sjá hvaða dásemdir lífið hefur upp á að bjóða. Ákvað að núna væri rétta tækifærið til að taka upp hollari lífshætti. Byrjaði daginn því á að sýna gríðarlegan sjálfsaga með því að sleppa rúsínuskammtinum á hafragrautinn. Svo fylgdi ég yngri syninum í skólann. Alltaf eitthvað svo indælt að halda í litlar hendur. Reyndar var mér skilað, eins og litla ljóta andarunganum við andapollinn á Akureyri þegar bekkjarsystir hans nálgaðist. Augnaráð hins sex ára anga gaf skýr skilaboð um að ég skyldi láta mig hverfa. Hann sagði við bekkjarsysturina ,,ég veit ekki af hverju hún er að leiða mig!“ Svo fór ég heim og gekk fimm hringi um húsið þangað til ég áttaði mig á að ég var í raun bara að þvælast fyrir sjálfri mér. Eiginmaðurinn, sem var líka í fríi þennan daginn, tók við kvörtunum: ,,Skúli, ég þarf einhverja tilbreytingu.“ ,,Tilbreytingu?“ sagði bóndinn með leyndardómsfullt bros á vörum. Setti skrúfjárn á viðeigandi stað vinnuvestisins og leit í augu mín. ,,Þá er ég rétti maðurinn á réttum tíma“, sagði hann og brosið færðist yfir allt andlitið. ,,Ég er, skal ég segja þér… nefnilega á leið í Húsasmiðjuna … og þér er boðið með.“ Í strætisvagninum á leiðinni sagði hann: ,,Húsasmiðjan er ævintýraheimur. Þetta verður ógleymanlegt.“ Korteri seinna gengum við inn í dótabúð bóndans. Flúorljós lýstu upp þrjá karla sem stóðu í hálfhring í vinnusamfestingum og héldu á hvítum pappamálum. Eiginmaðurinn lifnaði allur við þegar hann sá pappamálin. Pumpaði kaffi í mál sem ég hélt að hann myndi rétta mér. Eftir að ég hafði pumpað mér dagsgamalt kaffi í rykugt pappamál rölti ég á eftir honum um verslunina. Málm- og plastdót í alls konar formum glöddu bóndann.
Mynd 3
Mynd 4
Mynd 5
Loks komum við að hillugangi sem hafði þau áhrif að hann leit til beggja hliða með mikilli velþóknun. Öðru megin voru skrúfur í öllum stærðum og gerðum og hinum megin rör við öll tækifæri. Hann hafði rétt fyrir sér, þetta var tilbreyting.
Mynd 1
Mynd 2
Það var farið að nálgast hádegi og garnirnar farnar að gaula. Skyndilega fannst mér að ég hefði sýnt svo stórkostlegan sjálfsaga með því að sleppa rúsínuskammtinum um morguninn að ég væri búin að vinna mér inn nammi í hádegismat. Þegar ég sá nammið hjá kössunum í Húsasmiðjunni fannst mér eitt súkkulaðistykki vera svo ræfilslegt og að talan tveir liti einhvern vegin út fyrir að vera í meira jafnvægi. Ákvað því að kaupa mér tvö stykki. Því miður gerði Skúli ráð fyrir að ég kynni mannasiði og annað súkkulaðistykkið væri handa honum...