Rusli bjargað frá litlum umhverfisterroristum (frá árinu 2015)

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 14. júní 2021
Klukkan er níu á laugardagsmorgni. Ég ligg í rúminu og er að meta kosti þess og galla að fara fram úr. Frammi er kaffi, brauðristin og tveir sætir (en slímugir) ormar. Í rúminu eru náttúrlega mjúkir koddar og fjórir friðsælir veggir sem þurfa hvorki að láta þjóna sér né skeina. Heyri stubbalagið í gegnum vegginn. Sonur minn kallar á mig. Þetta verði ég að sjá. Já, nei takk. Ég meina, ef þér finnst heimsmálin stundum ruglingsleg, reyndu þá að horfa á Stubbana. Allt annað mun virðast kristaltært í samanburði. Fráhvarfseinkenni vegna átta tíma kaffibindindis hröktu okkur bóndann fram úr. Það tók ekki nema hálftíma að þrífa límfroðu af höndum eldri drengsins og varalit í kringum augu þess yngri áður en morgunmatur gat hafist. Kaffið kom sér einstaklega vel þennan morguninn þar sem í dag er vikulegur tiltektardagur fjölskyldunnar. Mamma mín hefur reynda aldrei skilið hvers vegna við þurfum að taka frá sérstakan dag í vikunni fyrir þrif. Í hennar augum er þetta einfalt: Bara taka til jafnóðum. Gera á hverjum degi það sem maður SÉR að þarf að gera. Þar liggur hundurinn einmitt grafinn. Það er að segja ég sé ekki drasl. Skúli getur vottað að þetta helgast ekki af því að ég sjái bara það sem ég vil sjá. Ég tek einfaldlega illa eftir umhverfi mínu almennt. Um daginn vorum við til að mynda á vappi úti þegar ég sagði: „Nei sko, nýtt hús!“ Hann svaraði að bragði að þetta hús hefði verið þarna að minnsta kosti frá því við fluttum til Akureyrar (4 ár), og að ég gengi fram hjá því að meðaltali þrisvar í viku. Þar sem við búum með hressum strákum eru heimilisþrif svolítið í líkingu við að moka út úr fjósi. Það er þó ekki stærsta vandamálið heldur hitt, að það drasl sem við viljum henda hóta strákarnir að endurvinna. Refsast okkur nú fyrir að hafa sent þá í grænfána leikskóla. Þeir hafa til dæmis unnið mótmælaskilti úr pappakössum, strákaföt úr mömmufötum, og ýmis listaverk úr óflokkanlegu rusli. En við vorum búin að bíta það í okkur að moka út rusli í dag og losna við það alla leið út í tunnu. Þess vegna ákváðum við að sópa strákunum út með því að senda þá báða út í bakarí til að kaupa mjólk og eitthvað gott með því. Þegar þeir voru úr augsýn höfðum við snarar hendur svo ruslið næði út í tunnu áður en umhverfis terroristarnir kæmu aftur. Snúðar með mjólk runnu svo ljúflega niður í maga strákanna, sem tóku ekkert eftir því að það vantaði alls konar drasl á gólfin.