Ofurforeldrar (frá árinu 2011)

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 13. júní 2021
Mín óvísindalega reynsla er sú að hægt sé að skipta foreldrum í tvo flokka: 1. Ofurforeldra 2. Þá sem eru hættir að reyna að troða sér í ofurmannsbúninginn. Ofurforeldrar þjóna fólki sem þarf ekki þjónustu og þurrka ímyndað ryk af húsgögnum. Þeir enda gjarnan daginn dauðuppgefnir upp í sófa þar sem þeir hugga sig við þá trú að þeir séu allavega mikilvægir. Hinir, bæði þeir sem verða fyrir ofurforeldrum og þeir sem eru hættir að hafa þörf fyrir að snýta öllum í kringum sig, vita að þeir eru reyndar síður en svo mikilvægir heldur hreinasta plága. Ég er ekki að leggja til að þú hættir að sinna skyldum þínum; snýta og hugsa um börnin, heimsækja ömmu, klappa makanum, heldur að þú komist að því hvað er í þínum verkahring og bætir þínum þörfum svo á to do listann. Ég var mjög óviljug að leggja inn á minn eigin ,,reikning” fyrr en ég áttaði mig á að við daglegar úthlutanir hafði reikningurinn minn ekki aðeins klárast, ég hafði einnig notað allan yfirdráttinn. Ég fór ekki að hugsa um sjálfa mig fyrr en sjálfsvanrækslan fór að bitna á öðrum, en þá fór ég líka í fimmta gír: Ég las mér til um foreldra sem voru líka þreyttir og uppgötvaði að ég var ekki ein. Ég kynnti mér stöðu foreldra í sögulegu samhengi og komst að því að fyrir iðnbyltinguna og í a.m.k. 60.000 ár þar á undan sáu ekki aðeins báðir foreldrar heldur öll stjórfjölskyldan um gleðina og vinnuna sem fylgir börnunum og heimilinu. Ein laugardagsmorgun ákvað ég því að láta rykið halda áfram að þyrlast um gólfin meðan ég skellti mér í freyðibað. Ég þáði hjálp við heimilisstörfin og pössun svo ég kæmist í bíó og að hitta vinkonur mínar. Ég sótti staðina mína, t.d. veitingastaðinn þar sem mér leið alltaf svo vel áður en ég drukknaði í þörfum annarra, gekk um hverfið sem ég ólst upp í, fór í heimsókn til skyldmenna og skoðaði hlutina sem höfðu fylgt mér frá barnæsku. Ég fór í nudd. Keypti mér fullt af súkkulaði og lakkrís. Ég bókaði tíma fyrir áhyggjur frá klukkan 19:30-20:00 á fimmtudeginum í næstu viku. Ég fór aftur að vinna verkefni sem átti hug minn allan. Á kvöldin fór ég í sund og horfði á stjörnurnar. Þegar heim var komið kveikti ég á kerti, settist í besta sófann með mýksta teppið, tebolla og LU kex, og kveikti á uppáhalds tónlistinni minni. Þannig fann ég sjálfa mig smám saman aftur. Og líf fjölskyldunnar fór ekki á hvolf þó ég hefði þarfir og þyrfti minn tíma. Í raun varð ég betra foreldri fyrir vikið.