Hrukkur, drasl og freistingar (frá árinu 2013)

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 13. júní 2021
Í dag er frídagur. Strákarnir vöknuðu því endurnærðir klukkan hálf sex og vöktu okkur með hoppum í hjónarúminu. Bóndinn fór fram með ormana og kveikti á barnatímanum. Við hjónin gátum því rotast aftur. Vaknaði við skell. Leit út í garð og sá að nágranninn hafði skellt hurðinni á gróðurhúsinu sínu, sæll og glaður. Hafði greinilega byrjað morguninn á því að sópa stéttina framan við húsið. Nú er hann lagstur í eitt blómabeðanna. Venjan er að þegar hann er búinn að slá þá vökvar hann blettinn svo hann geti slegið sem fyrst aftur. Rigning þýðir venjulega að okkar maður í garðinum liggur á fjórum fótum í skjóli nætur og tínir orma á meðan við hjónin liggjum eins og púpur með teppi í sófanum. Gat ekki lengur legið undir dugnaði nágrannans. Klofaði því yfir hrúgu af kubbum, gaf ó-samanbrotnum þvotti illt auga og leit framhjá himinháum stöflum af leirtaui á leiðinni að pottaskápnum. Ruslaði út alls konar dóti þar til ég fann pott og sleif. Skellti í hafragraut. Djöfull getur maður verið myndarlegur stundum! Bóndinn rumskaði við lætin í frúnni, leit út og sá hvers kyns var. Sópaði drengjunum í útiföt og stökk með þeim út í beð. Ég hellti upp á kaffi og leit inn í ísskáp. Í ísskápnum var súkkulaðikaka sem bóndinn bakaði í gær. Fékk mér smá horn, svona dömulega sneið með morgunkaffinu. Svo eina í viðbót, vegna þess að ég var svo dugleg að fá mér bara litla sneið áður. Þegar strákarnir komu aftur inn lá ég í sófanum og skóflaði upp í mig síðustu sneiðinni af súkkulaðikökunni. Bóndinn birtist ískaldur og hrakinn í dyragættinni: Ég: „Ég er svo ánægð að við höfum ákveðna verkaskiptingu á heimilinu, finnst þér það ekki gott Skúli, ha?” Skúli: „Einmitt, ég baka og þú borðar.” Til allrar hamingju hafði hann bakað tvær kökur og falið aðra þeirra, vitandi á hverju var von þegar hann asnaðist til að skilja við frúnna eftirlitslausa. Til að bæta fyrir súkkulaðikökuátið hrökklaðist ég í leikfimi. Þar var þessi eiturhressi kennari. Hvernig geta þjálfarar verið svo yfirgengilega hressir? Er þetta svona heima hjá sér? Þjálfarinn öskraði ógnvekjandi „Eru ekki allir í stuÐI! HA! ERU EKKI ALLIR Í STUÐI!!!!“ Og salurinn þorði auðvitað ekki öðru en að vera í stuði. JÚ!!? Auðvitað voru allir í stuði – annað kostar 30 armbeygjur. Á leiðinni heim kom ég við í snyrtivörubúð til kaupa gloss. Afgreiðslukonan seldi mér þá hugmynd að ég væri með háræðaslit og hrukkur og þyrfti því ekki aðeins gloss heldur hitt og þetta og alls konar til að hylja og slétta. Gekk út rosalega þakklát þessari konu fyrir litlar 34.000 krónur. Kostnaðurinn verður skráður í bókhald heimilisins sem ábatasamar fjárfestingar. Þegar ég kom aftur heim var heimilið skínandi fínt og allt í röð og reglu. Ég ætlaði að fara að þakka fyrir en þá þurfti Skúli að segja: ,,það er lítið mál að halda heimilinu fínu, bara ef þú ert ekki heima.“