Sönn sveitó sakamál

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 26. september 2020
Eftir að hafa varið um það bil þremur árum í að læra lögfræði var komið að stóru stundinni. Að fylgjast með fagmönnum á vettvangi í Héraðsdómi Norðurlands vestra. Á leiðinni kom ég við í bakaríinu á móti og krækti mér í kaffibolla. Það var skemmtilegt að sjá, að dómarinn hafði einnig freistast til að koma við í bakaríinu á leið sinni í vinnuna. Ummerki um freistingar morgunsins sáust á kaffistofunni: Box af smákökum. Dómssalurinn opnaðist og fátækir nemendur, flestir í sjúskuðum, þriggja ára gömlum sparifötum, fengu sér sæti á hliðarlínunni. Ákært var fyrir vörslu fíkniefna og akstur undir áhrifum og án þess að ökumaðurinn væri með gilt ökuskírteini.

Hirðin mætir á svæðið:

Dómarinn gekk inn í salinn í allt of síðum kjól. Heitir það skikkja? Nú jæja. Tveir lögmenn fylgdu á eftir. Einnig í svona skikkjum, nema þeirra skikkjur voru ekki eins flottar. Gildir hér greinilega reglan um brúðina og brúðarmeyjar hennar. Þessari yfirdrifnu sýndarmennsku var snarlega kippt í liðinn þegar sakborningurinn mætti á svæðið í hettupeysu og með tvær smákökur. Hann skellti annari upp í sig og færði lögmanni sínum hina áður en hann settist honum við hlið. Þegar allir voru sestir bað dómarinn aðila um heimild til að sleppa því að lesa upp kæruna ,,því það tæki líklegast allan daginn‘‘. Sakborningnum var skemmt og klappaði saman lófunum. Við grænjaxlarnir stóðum þá freistingu að klappa með.

Góðkunningi bar vitni:

Leidd voru fram vitni. Fyrsta vitnið var farþegi bílsins þann örlagaríka dag þegar hettupeysan á að hafa ekið réttindalaus og undir áhrifum. Vitnið var íbúi á Litla hrauni. Hann, eins og dómarinn gekk inn með fylgd, nema honum fylgdu tveir lögregluþjónar. Vitnið sagði í óspurðum fréttum að ákærði væri saklaus. Ákærði reisti þá áhugasamur upp putta, eins og til að segja, ,,bíðið aðeins‘‘, skaust því næst fram á gang án afskipta lögreglu né athugasemda dómarans, og kom að vörmu spori aftur inn í salinn í fylgd foreldra sinna, sem hann bauð sæti meðal áhorfenda. Vitnið hélt áfram að bera ákærða góða söguna og sagðist sjálfur eiga fíkniefnin sem fundust í bílnum þennan dag. Þegar vitnið hafði lokið sér af var það leitt út úr salnum.

,,Ef umbjóðandi minn hefði aðeins haldið kjafti‘‘:

Lögmaður ákærða varði hann með þeim rökum að brot hans væru aldrei úthugsuð. Auk þess væru þetta allt saman smábrot. ,,Svo má hann eiga það að hann játar alltaf allt og meira til því ef hann hefði haldið kjafti þá hefði hann komist upp með ýmislegt‘‘, sagði lögmaðurinn. En í staðinn fengi hann alltaf dóm fyrir allt, þrátt fyrir hugsanlega formgalla á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Þá gangist hann iðulega við öllum bótakröfum og sé alltaf rosalega sorrý yfir öllu. Ákærði leit ánægður til lögmannsins, brá sér því næst fram og kom aftur inn með fleiri smákökur handa honum.

Ákærði sýndi atvinnutakta:

Nú var lögreglumaður kallaður til sem vitni. Lögmaður ákærða spurði hvers vegna ekki hafi verið tekið tekið blóðsýni af umbjóðanda sínum og hvaða heimildir lögreglan hefði til að taka af honum þvagsýni. Svar lögreglumannsins var einfalt: umferðarlög. Þegar lögreglumaðurinn hafði lokið við að svara spurningum, fór hann út úr salnum eins og önnur vitni. Ákærði fór þá einnig út úr salnum. Það vakti ekki mikla athygli. Líklega hefur dómarinn talið hann eiga erindi við smákökuboxið. Stuttu seinna kom hann aftur inn í réttarsalinn en nú í fylgd lögreglumannsins sem vitnað hafði í umferðarlög. Lögreglumaðurinn sagði að ákærði hefði fylgt honum niður stigann og hótað honum. Dómarinn sagði rólegur að ekki væri hægt að fjalla um atvikið í þessu réttarhaldi. Þegar hér var komið sögu sagðist ákærði vilja fara heim til sín áður en hann kæmi sjálfum sér í meiri vandræði. Lögmaður hans bað þá um tíu mínútna hlé til að geta átt orðastað við umbjóðanda sinn. Ákærði kastaði hlýrri kveðju á áhorfendur á leiðinni fram. Áhorfendur reyndu að standast þá freistinguna að brosa hlýlega til baka.

Að vera eða vera ekki með ökuréttindi:

Eftir hlé var hringt í annað vitni. Lögreglumann frá Borgarnesi. Hann útskýrði hvers vegna hann hafði stöðvar för ákærða. Ástæðan var sú að það var ekkert númer á bílnum. Eftir samtal við ökumanninn hafi honum fundist hegðan hans sérkennileg. Þess vegna hafi verið tekin af honum þvagprufa. Við leit í bílnum fundust fíkniefni í tösku. Fleiri lögreglumenn voru fengnir til að bera vitni. Eitt af því sem kom fram var að ákærði hafði ekki verið með ökuréttindi á þessum tíma, þó það hafi ekki verið skráð inn í tölvukerfi lögreglunnar fyrr en nokkru seinna.

Nema ,,löggjafinn hafi gleymt að setja þau lög sem lögmaðurinn ímyndaði sér‘‘:

Fulltrúi ákæruvaldsins sagði liggja fyrir að ákærði hefði, skömmu fyrir bíltúrinn góða, verið sviptur ökuréttindum í tvö ár. Hann hefði átt að vita að tvö ár þýði tvö ár. Þá skapi það engan rétt þó upplýsingar um ökuréttinda sviptinguna hafi ekki verið komnar inn í tölvukerfið. Slíkt ómerki ekki dóma héraðsdóms ,,nema við viljum brjóta blað í réttarsögunni‘‘. Marg dæmt sé, bæði í héraði og hæstarétti að þvagsýni nægi til að sýna fram á hvort fíkniefni sé í líkama fólks. Einnig liggi fyrir varsla ákærða á fíkniefnum. Hæfileg refsing sé óskilorðsbundið fangelsi í 5 mánuði og svo eigi að svifta hann ökuréttindum ævilangt. Fíkniefni hafi fundist í þvagsýninu og þannig hafi verið sýnt fram á að ákærði ók undir áhrifum fíkniefna. Lögmaður ákærða krafðist sýknu vegna þess meinta brots að ákærði hefði ekið undir áhrifum fíkniefna, þar sem aðeins var stuðst við þvagsýni. Til vara krafðist hann sýknu af þessum ákærulið eða að sviptingin yrði sem styst. Hann krafðist þess einnig að þeirri ákæru að umbjóðandi hans hafi ekið án ökuréttinda yrði vísað frá, vegna þess að lögreglumaður hefði sagt umbjóðanda hans á vettvangi að ökuréttindi hans væru ,,í lagi‘‘. Hann hafi með öðrum orðum fengið þær upplýsingar frá yfirvaldinu og því verið í góðri trú um að svo væri. Gögn sem sýndu fram á að umbjóðandi hans hafi í raun verið sviptur ökuréttindum í tvö ár og hafi þar af leiðandi ekið réttindalaus, hafi ekki verið lögð fram fyrr á síðari stigum. Þannig hafi verið kippt undan stoðum varnar. Þess vegna beri að vísa þessum ákærulið frá. Til vara krafðist hann vægustu refsingar. Þá sagði lögmaðurinn að ekki sé ljóst hvað það merki að vera sviptur í tvö ár. Það að vera sviptur ævilangt merki til að mynda að vera sviptur í fimm ár. Ákærði hafi fengið þær upplýsingar frá yfirvaldinu að ökuréttindi hans væru ,,í lagi‘‘ eins og áður sagði og því hafi hann verið í góðri trú um að sá tími sem hann hefði verið sviptur væri nú liðinn. Að lokum sagði hann að umbjóðandi hans hefði ekki vitað að það væru fíkniefni í bílnum. Farþegi bílsins, sem sé vitni í málinu, hafi staðfest þetta og játað að hann hafi verið eigandi efnanna. Með tilliti til alls væri hæfileg refsing tveggja til þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fulltrúi ákæruvaldsins notaði tækifærið til andsvara. Sagði lögmann ákærða ekki kunna umferðarlögin. Ævilangt þýði ævilangt en ekki fimm ár. Frávísunarkrafa lögmannsins byggi á ímyndunum um það hvaða lög gilda í landinu, ,,nema löggjafinn hafi gleymt að setja þau lög sem verjandinn ímyndar sér.‘‘ Nú var gert hádegishlé og svo hélt leikritið áfram á svipuðum nótum.

Tíma vel varið?

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst tíma dómstóla ekkert sérstaklega vel varið þegar það fer heill dagur, tíu smákökur og flugferð með íbúa Litla Hrauns, auk tveggja fylgdarmanna, norður yfir heiðar, vegna eins góðkunningja sem þarf líkast til bara að fara í meðferð.