Ís er svarið

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 8. janúar 2020
,,Hnattræn tengsl? ...segðu mér, hverju nákvæmlega geturðu breytt fyrir okkur? hvaða vandamál geturðu leyst?’’ -var viðkvæði vinnumarkaðsins þegar ég sagðist vera með MA próf í Hnattrænum tengslum. Ég skráði mig því enn einu sinni í nám og í þetta skiptið mjög praktíska námsleið sem gerir mér kleift að leysa vel skilgreind vandamál fyrir fyrirtæki: Bókhald.Ekkert er leiðinlegra en bókhald. Einmitt þess vegna vantaði mig ís. Vantaði ! Var auk þess að lesa fyrir próf og þá er ís staðalbúnaður. Fór í Hagkaup. Leitaði lengi áður en ég bað starfsmann um aðstoð. Hann benti mér hróðugur á það sem hann kallaði ,,ísflóru Hagkaupa''; hafraís, próteinís, sykurlaus ís... Skömmustuleg hvíslaði ég loksins ,,Já ég meina...eigið þið ekki alvöru ís?'' (Mér leið eins og ég væri að biðja um eitthvað ólöglegt, sem aðeins væri afgreitt undir borðið.) Starfsmaðurinn horfði í kringum sig og þegar hann var búinn að fullvissa sig um að enginn væri nálægt sagði hann mér að hann hefði séð einn sveittan með kökudeigi ,,hérna einhvers staðar áðan''. Þessar fréttir vöktu von og saman fundum við loksins síðasta alvöru ísinn á svæðinu. Starfsmaðurinn benti mér því næst á að nota sjálfsafgreiðslukassa, líklega til að skömm mín færi leynt. Ég fór út úr búðinni í skjóli nætur, guði sé lof fyrir möndulsnúning jarðar.