AÐ NENNA, EÐA NENNA EKKI AÐ LEITA

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | fimmtudagur, 4. júlí 2019
Nýlega forum við öll í sveitina, þar sem foreldrar eiginmannsins búa. Pökkuðum eins litlu og mögulegt var. Strákarnir fengu það verkefni að velja sér einn hlut sem þeir vildu taka með sér, það mátti vera bangsi eða bók eða hvað sem var. Yngri sonurinn sagði að hann vildi hafa með sér flug-bangsa, en hann hefur átt þennan vængjaða bangsa frá eins árs aldri. ,,Já, finndu flugbangsa og settu í töskuna’’ sagði kallinn, þar sem hann stóð í hjónaherberginu og pakkaði í ferðatösku. Sá stutti ráfaði út úr herberginu og kom stuttu seinna aftur, ,,fannstu flugbangsann’’ sagði pabbi hans. ,,Nei‘‘ svaraði sonurinn. ,,Athugaðu í herberginu þínu‘‘ sagði pabbinn. Sonurinn ráfaði aftur fram og kom til baka eftir tæpa mínútu. ,,Ég finn hann ekki, viltu hjálpa mér að leita?’’ sagði hann og lagðist í rúmið okkar. Eiginmaðurinn lokaði ferðatöskunni og fór inn í svefnherbergi þess stutta. Flugbangsi lá á miðju gólfinu í herberginu hans.
Flugbangsi á miðju gólfi, mynd: Melkorka
Flugbangsi á miðju gólfi, mynd: Melkorka
Ekkert annað dót var nálægt sem hefði getað byrgt syninum sýn. ,,Varstu örugglega búinn að leita inni í herberginu þínu?’’ kallaði sá stóri til þess litla. ,,Alls staðar, ég er búinn að leita alls staðar!’’ kallaði barnið, bugað, til baka. Eiginmaðurinn kom þá með flugbangsa inn í svefnherbergi okkar hjóna, þar sem barnið lá enn. ,,Þú hefur bara ekki nennt að leita!‘‘ sagði hann og skellti flugbangsa í ferðatöskuna. ... Það er skemmst frá því að segja að ormarnir okkar náðu að týnast í sveitinni. Keldnaland er stórt, þar eru gjótur, þar er lækur og nautgripir úti…. Yngri sonur okkar hafði sagt við okkur, áður en hann týndist að hann ætlaði að skreppa upp á fjall, sem ,,er hérna rétt hjá’’. Við hlógum. ,,Já einmitt’’ sögðum við, ýttum sólgleraugunum upp á nefið og lögðumst á sólbekki sem eru á pallinum framan við hús tengdaforeldra minna. Klukkutíma síðar, dró ský fyrir sólu. Um leið rankaði ég við mér. Hvar eru strákarnir???!!! Við fórum upp á hól og niður að læk. Ekkert sást til strákanna. Loks ræstum við jeppann og keyrðum landareignina þvera og endilanga. Vinnumaðurinn stökk upp í traktor og keyrði á þá staði sem jeppinn dreif ekki og skimaði um allt með kíki. Bróðir eiginmannsins, var í heimsókn. Hann var með öflugan dróna með myndavél. Dróninn var sendur af stað.
Mynd tekin á drónann hans Lýðs þennan örlagaríka dag, þegar hann var að leita að ormunum. Myndasmiður: Lýður Skúlason.
Mynd tekin á drónann hans Lýðs þennan örlagaríka dag, þegar hann var að leita að ormunum. Myndasmiður: Lýður Skúlason.
Allt kom fyrir ekki. Klukkutíma síðar sá vinnumaðurinn eitthvað úti á túni, tók upp kíkinn og þarna voru strákarnir. ,,Hvar voruð þið? Við fundum ykkur hvergi!‘‘ -sagði ég. Þá kom glott á þann stutta: ,,Þið hafið bara ekki nennt að leita!‘‘