SPARKAÐ ÚT Í ALVÖRU HEIMINN

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 2. júlí 2019
Núna, þegar skólagöngu minni er LOKSINS lokið (halló Skúli!), dreymir mig ekkert annað á nóttunni en að læra meira og skrifa um það sem ég læri. Ég vil einfaldlega skilja alls konar hluti, alla hluti, ólíklegustu hluti. Um daginn var ég til dæmis í djúpum samræðum við mann sem vinnur á dráttarbát. Hann sagði mér allt um dráttarbáta. Nokkrum dögum áður var ég dolfallin yfir námskeiði um raddbeitingu. Nei, mig langar ekki að fara á þetta námskeið. En vinkona mín fór og hún sagði mér allt um það hvers vegna raddbeiting skipti máli, mér fannst hreinasta skemmtun að hlusta og reyna að skilja. Þegar ég lagði stund á heimspeki var ég iðulega spurð hvað í andskotanum ég ætlaði að gera við þessa menntun. Ég hafði enga hugmynd. Kom svo við í guðfræðideildinni, nældi mér í smá skilning á trúarbragðafræði og eiginmann. Einn snjóþungan dag, á meðan ég var að læra lögfræði, spurði kennarinn hvers vegna við hefðum ákveðið að skella okkur í lögfræði. Allir voru með viðeigandi svar, nema ég. Ég sagði: ,,ég bara man það ekki.‘‘ Féll svo fyrir námi í hnattrænum fræðum sem ég var að útskrifast úr núna í júní. Nú lagar mig að skilja hagkerfið, stjórnmál og læra sænsku. En LÍN segir ,,drullaðu þér í burtu og farðu að vinna‘‘. Ég er heppin að hafa spennandi verkefni í smíðum; bók og greinaflokk í Kjarnanum, en þetta eru tímabundin verkefni. Ég veit ekki hvað gæti tekið við að þeim loknum. Er hægt að vinna við að skrifa, skilja, tala og hlusta? Já hlusta. Þegar ég tala við fólk fæ ég undantekningarlaust mikinn áhuga á því sem viðkomandi er að starfa við eða ganga í gegnum. Allir halda því að ég vilji starfa við það sama og þeir. Fáir átta sig á að ég hef einfaldlega áhuga á að skilja fólk og fyrirbæri. Núna, þegar mér hefur endanlega verið sparkað úr skóla (lesist: búin að klára lánasjóð íslenskra námsmanna), er ég stödd í drullupolli sem kallast víst ,,alvöru heimurinn’’. Og þá spyr ég, forvitin og vitlaus í senn: Hvað í ósköpunum á ég nú að gera?