Þeir sem þekkja mig best vita að búðir, og þá sérstaklega fatabúðir eru mitt persónulega helvíti. Ég fer helst ekki í slíkar búðir nema ég sé orðin algjörlega fatalaus, og þá meina ég að ástandið þarf að vera orðið það slæmt að ég er farin að seilast í fataskápinn hans Skúla.
Í dag neyddist ég til að fara í fatabúð til að kaupa á mig föt fyrir útskriftina.
Undirbjó mig vel andlega. Svaf í 9 tíma. Tók 90 mínútna jógaæfingu og borðaði staðgóðan hádegisverð. Svo hóf ég innreið mína í H&M í Kringlunni.
Í fyrstu gekk ágætlega. Ég byrjaði að hrúga á mig fötum, ekki bara sparifötum heldur alls konar (vegna þess að ég ætla ekki að stíga þarna inn fæti næstu 5 árin).
Svo fór að síga í, sérstaklega eftir að ég áttaði mig á hvað búðin er stór. Ég var frelsinu fegin þegar ég kom að óléttudeildinni, því hana þurfti ég ekki að skoða.
Þá var bara eftir nærfatadeildin. Á þessum tímapunkti var ég alveg að gefast upp. Íhugaði alvarlega að fá bara nokkrar nærbuxur af mömmu. Hún á nóg af þeim og myndi ekkert taka eftir því ef nokkrar þeirra hyrfu.
Eftir að hafa mátað tvennar síðbuxur í réttri stærð, sem pössuðu þó ekki á mig, horfðist ég í augu við að kannski hafði rassgatið á mér stækkað. Neyddist því til að seilast eftir nærbuxum í einhvers konar X númeri með lokuð augun.
Valhoppaði svo í Te&Kaffi.