Af hverju er fjörutíu ára afmælisdagurinn það hræðilegasta sem getur komið fyrir þig?
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir | 29. júní 2019
,,Þetta er síðasti dagurinn sem ég verð þrjátíu og eitthvað'' tilkynnti pabbi fjölskyldunni á dramatískan hátt, þar sem við stóðum í brekku í Tívolíinu í Kaupmannahöfn og tróðum ís í andlitið á okkur.
Ég var tíu ára.
Ég skynjaði að þetta var mest niðurdrepandi dagur sem faðir minn hafði upplifað.
Þetta var í fyrsta skiptið sem einhver, sem átti afmæli daginn eftir, sagði mér frá því án þess að blik í augum, slef út á kinn og eftirvænting í röddinni fylgdi með.
Milli afmælisdaga var venjulega reynt að gera meira úr aldrinum en innistæða var fyrir:
,,Ég er ekki fjögurra ára, ég er fjögurra og hálfs!''. Eða,
,,Ég er alveg að verða tólf!'', eða,
,,það má segja að ég sé orðinn fimmtán ára, vegna þess að ég er á fimmtánda ári!''
Pabbi minn hefur alltaf verið hetja mín og fyrirmynd enda er ekki leiðum að líkjast að flestu leiti. Ég vil vera eins og hann eða bæta um betur.
Daginn fyrir tuttugu ára afmælisdaginn tók ég því Tívolí senu föður míns tuttugu árum of snemma.
Ég fór með vinkonum í helli nálægt Selfossi, pantaði pizzu þangað og grét svo ofan í pizzuna, algjörlega miður mín yfir þessu afmæli.
Daginn eftir tók ég meðvitaða ákvörðun um að erfa allt annað en þessa vitleysu frá pabba.
Í sumar verð ég þrjátíu og átta ára. Sumir myndu segja að ég væri byrjuð að eldast en ég segi að ég hef aldrei gert neitt annað en að eldast.
Hvað er það annars með fertugsaldurinn sem er svo hræðilegt?
Ég hef velt þessu mikið fyrir mér.
Ég held að þetta sé svipað eins og með gleymda miðjubarnið. Það er ekki yngsta krúttið og ekki elsta og gáfaðasta barnið. Miðjubarnið er bara eiginlega ekkert. Eða þannig getur því liðið.
Sem -næstum því fertug- hugsa ég stundum ,,Who the fuck am I now?!‘‘ Er ég einfaldlega krumpaðri útgáfa af mínu tuttugu og fimm ára sjálfi? Ég er hvorki ný útsprungin blómarós né vitur gömul kona með visku í poka handa barnabörnunum.
Fólk segir stundum í viðtölum að þó það hafi vissulega verið ömurleg reynsla að verða fjörutíu ára þá sé æðislegt að verða fimmtíu- og sextíu ára. Sextíu ára afmælisdagurinn sé jafnvel betri en sá fimmtugasti. Lífið verði bara sífellt betra.
Ég veit ekki með ykkur, en ég ætla ekki að bíða með að fagna þangað til ég verð fimmtíu eða sextíu ára.
Mér finnst mjög viðeigandi að fjörutíu ára afmælisdagurinn nálgist. Ég er búin að upplifa svo margt og er farin að öðlast smá visku.
Börnin eru orðin sjálfbjarga (loksins!), og við Skúli erum því aftur farin að eiga meiri tíma saman, bara tvö.
Með blik í augum, slef út á kinn og eftirvæntingu mun ég halda upp á fjörutíu ára afmælið eftir tvö ár.
Það má reyndar segja að ég sé orðin fjörutíu ára, vegna þess að ég er er á fertugasta áratugnum sko!